Leikritið Fool for love hefur hlotið góðar viðtökur frá því að það var frumsýnt í Austurbæ í desember. Sveinn Ólafur Gunnarsson er einn leikara sýningarinnar, en hann er á leið norður til Akureyrar.

Eftir Hildi Eddu Einarsdóttur

hilduredda@24stundir.is

Leikfélagið Silfurtunglið frumsýndi leikritið Fool for love eftir bandaríska leikskáldið Sam Shepard í lok síðasta árs og var upphaflega ætlunin að ljúka sýningum á því í janúarlok. Aðsóknin hefur þó verið framar öllum vonum og því hefur verið ákveðið að halda sýningum áfram til loka febrúar. Einn leikara í verkinu, Sveinn Ólafur Gunnarsson, segist óska þess að hægt væri að sýna það ennþá lengur. „Ég var búinn að ganga með þann draum í maganum í nokkurn tíma að setja upp verk eftir Sam Shepard en svo frétti ég að einhver annar væri að fara að gera það þannig að ég hugsaði með mér: „Þar fór það“. En svo hringdi Jón Gunnar leikstjóri í mig og bauð mér hlutverk í Fool for love þannig að ég ákvað að slá tvær flugur í einu höggi,“ segir hann. Í leikritinu leikur hann kúrekann Eddie sem er ródeó-maður og áhættuleikari, og hittir fyrir fyrrum ástkonu sína á móteli í Texas. „Það má segja að hann sé holdgervingur karlmennskunnar og sannur kúreki,“ segir Sveinn Ólafur, en hann er þegar byrjaður að æfa fyrir leikritið Dubbeldusch sem Vesturport setur upp í samstarfi við Leikfélag Akureyrar. „Þar leik ég náunga sem við köllum bara Manninn. Hann er viðkunnanlegur rólegheitamaður og hann er gerólíkur Eddie í Fool for love, sem er mjög gott því að mér finnst spennandi að stökkva á milli gerólíkra verkefna.“

Framundan hjá Sveini eru stífar æfingar á Dubbeldusch. „Við byrjuðum á samlestri í Borgarleikhúsinu síðasta mánudag og svo strax daginn eftir vorum við komin á gólfið, sem er nokkuð óvenjulegt. Svo förum við norður til Akureyrar um miðjan febrúar þannig að ég verð á flakki á milli Akureyrar og Reykjavíkur meðan sýningar á Fool for love eru að klárast.“

Allir leikarar og leikstjóri Fool for love eru komnir með ný verkefni upp í hendurnar og því verður ekki hægt að sýna verkið lengur en út febrúar. Sveinn segir uppsetninguna hafa verið mikið ævintýri. „Í raun fórum við út í þetta sem hálfgert hugsjónaverkefni þar sem við nutum ekki fjárstuðnings neins nema nokkurra fyrirtækja sem styrktu okkur. Launin hafa ekki verið há en verðlaunin hafa verið ómetanleg í formi þakklætis áhorfenda og jákvæðra dóma,“ segir hann. Fyrir utan að leika í Fool for love og Dubbeldusch hefur Sveinn sitthvað fleira á sinni könnu. „Einu stöðugu tekjurnar sem ég fæ eru fyrir lestur auglýsinga. Svo er ég, ásamt Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur, að föndra við leikstjórn hjá Stúdentaleikhúsinu og það er ævintýralega skemmtilegt verkefni. Ég útskrifaðist sem leikari árið 2006 og var þá staðráðinn í að leggja fyrir mig kvikmyndaleik enda kominn með hálfgerðan leiða á leikhúsinu, en pældi aldrei í leikstjórn. Verkefnin í kvikmyndaleik eru hins vegar stopul ef maður er ekki þekkt nafn og svo er ég aftur kominn með mikla ástríðu fyrir leikhúsinu. Nú heillar leikstjórn mig líka mikið og ég gæti hugsað mér að starfa meira við það í framtíðinni. En ég veit ekki hvað verður, það kemur bara í ljós.“

Í hnotskurn
Var frumsýnt árið 1983 í Bandaríkjunum, en sögusviðið er vegamótel í suðurríkjum Bandaríkjanna.