— Árvakur/Árni Sæberg
NÆSTKOMANDI mánudag er bolludagurinn. Hann er óvenju snemma í ár, enda eru páskarnir mjög snemma, páskadagur er 23. mars, og bolludaginn ber alltaf upp á mánudag í sjöundu viku fyrir páska.

NÆSTKOMANDI mánudag er bolludagurinn. Hann er óvenju snemma í ár, enda eru páskarnir mjög snemma, páskadagur er 23. mars, og bolludaginn ber alltaf upp á mánudag í sjöundu viku fyrir páska.

Að sögn Jóhannesar Felixsonar, formanns Landssambands bakarameistara, er erfitt að segja til um það hversu mörgum bollum landsmenn torga að þessu sinni. „Það minnkar nefnilega með hverju árinu, skal ég segja þér,“ segir hann. „Við reiknum nú samt með svona hér um bil einni og hálfri á mann,“ segir hann. Í það heila verði þannig gleyptar 400-450.000 bollur í tilefni dagsins.

Ýmsir bakarameistarar taka forskot á sæluna og mátti jafnvel sjá bollur í sumum bakaríum þegar um síðustu helgi. „Þetta hefur aðeins breyst,“ segir Jóhannes. „Nú bakar fólk líka minna heima hjá sér, sem er náttúrlega fyrst og fremst vegna þess að það hefur enginn tíma til þess núna. Önnur breyting er að nú hefur heimilisbolludagurinn færst yfir á sunnudaginn en atvinnubolludagurinn yfir á mánudag,“ segir hann og útskýrir orð sín svo að fjölskyldan hittist á sunnudögum og borði bollur en fyrirtækin bjóði síðan upp á bollur á mánudeginum sjálfum.

Nú styttist í annan stóran dag fyrir bakara en kaka ársins er bökuð í bakaríum landsins í tilefni konudags ár hvert. „Það fer bara annar hver kall á landinu út í bakarí og kaupir þessa köku handa konunni,“ segir Jóhannes og bætir við að kakan sé gríðarlega vinsæl. Kaka ársins að þessu sinni hefur þegar verið valin en hulunni verður ekki svipt af henni fyrr en rétt fyrir konudaginn sjálfan, sem er 24. febrúar. „Við munum byrja að selja hana um þá helgi,“ segir Jóhannes Felixson.