Reynsla Rubens Barrichello (h) ásamt liðsmanni sínum Jenson Button við nýja Honda RA108. Þegar kemur að tyrkneska kappakstrinum í ár mun Barrichello hafa keppt í fleiri formúlumótum en nokkur annar ökuþór sögunnar.
Reynsla Rubens Barrichello (h) ásamt liðsmanni sínum Jenson Button við nýja Honda RA108. Þegar kemur að tyrkneska kappakstrinum í ár mun Barrichello hafa keppt í fleiri formúlumótum en nokkur annar ökuþór sögunnar. — Reuters
Eftir Ágúst Ásgeirsson agas@mbl.is Rubens Barrichello, ökumaður Honda-liðsins, segist fullur eldmóði og að áhuginn sé ekkert að dala þótt hann sé að hefja sitt sextánda keppnisár í Formúlu 1. Hann segist heldur ekkert vera farinn að hugsa um að hætta.

Eftir Ágúst Ásgeirsson

agas@mbl.is

Rubens Barrichello, ökumaður Honda-liðsins, segist fullur eldmóði og að áhuginn sé ekkert að dala þótt hann sé að hefja sitt sextánda keppnisár í Formúlu 1. Hann segist heldur ekkert vera farinn að hugsa um að hætta. Þrátt fyrir langan feril í formúlunni sé hann enn spenntur fyrir því að hefja nýtt keppnistímabil og geti vart beðið eftir að fá að byrja. „Það er í raun undarlegt, og menn halda að þetta séu sömu hlutirnir aftur og aftur. Þetta er stöðugt spennandi vegna nýjunga, ný keppnistíð er alltaf eins og nýtt upphaf á ferlinum. Sú var tíðin, eftir þrjú til fjögur ár í keppni, að mér var farið að leiðast og ég spurði sjálfan mig hversu lengi ég myndi endast í keppni. Það er liðin tíð og nú kann ég að safna góðum kröftum þegar á þarf að halda og snúa baki við mótlæti.“

Barrichello hóf keppnisferilinn með Jordan-liðinu árið 1993 en þaðan lá svo leiðin til Stewart 1997-1999, og með Ferrari keppti hann 2000-2005.

Svo lengi sem líkaminn leyfir

Með Honda er Barrichello að hefja sína þriðju keppnistíð. Þegar kemur að tyrkneska kappakstrinum í ár mun hann hafa keppt í fleiri formúlumótum en nokkur annar ökuþór sögunnar. Það verður 257. mót hans og mun Barrichello þá slá við ítalska ökuþórnum Riccardo Patrese sem keppti í 256 mótum á árunum 1977 til 1993. Barrichello verður næstelsti ökuþórinn í ár, en hann verður 36 ára í maí. Aðeins David Coulthard, sem verður 37 ára í mars, er eldri. Barrichello er á lokaári samnings síns við Honda en hann segist sannfærður um að þetta verði ekki síðasta árið hans í keppni í Formúlu 1. „Svo lengi sem líkaminn leyfir,“ svaraði hann þegar hann var spurður, á frumsýningu Honda í vikunni, hversu lengi hann ætti eftir að keppa. „Ég er ekki enn kominn á líkamlega getutoppinn,“ bætti hann við. „Að því kemur að ég get ekki hlaupið eins hratt og nú, en sá tími er ekki runninn upp. Og mér finnst bara of gaman að keyra Eau Rouge (beygjuna í belgíska kappakstrinum í Spa-Francorchamps) í botni. Ég elska að vera með en ég held að þetta verði ekki mitt síðasta keppnisár. Djúpt innra með mér ætla ég ekki að hætta. Ég ætla að hætta áður en einhver segir mér að gera það. Þegar að því kemur að mér finnst ég ekki samkeppnisfær lengur, þá verður tími kominn til að hætta,“ sagði Barrichello.