Halldóra Traustadóttir
Halldóra Traustadóttir
Halldóra Traustadóttir skrifar um þing IAW sem eru alþjóðleg samtök kvenréttindafélaga: "Samþykkt var á þinginu að meginstoðir allrar vinnu og framkvæmda samtakanna skyldu byggjast á réttlæti, mannréttindum, lýðræði, friði og afnámi alls ofbeldis gegn konum."

INTERNATIONAL Alliance of Women (IAW) eru alþjóðleg samtök kvenréttindafélaga sem stofnuð voru í Berlín 1904. Bríet Bjarnhéðinsdóttir, fyrsti formaður Kvenréttindafélags Íslands (KRFÍ), sótti aðalþing samtakanna fyrir stofnun KRFÍ árið 1907 og hefur félagið verið aðili að samtökunum síðan 1911. Á þriggja ára fresti heldur IAW aðalþing sitt þar sem ný stjórn er kosin. Að þessu sinni var aðalþing IAW haldið í Nýju Delhí á Indlandi og með góðum stuðningi forsætisráðuneytis, utanríkisráðuneytis og félagsmálaráðuneytis gafst KRFÍ kostur á að senda veglega sendinefnd til Indlands sem þótti vel við hæfi á aldarafmæli félagsins enda skiptir það verulegu máli fyrir það aðildarfélag sem heldur ársþingið hverju sinni að fá góða þátttöku félagsaðila til að ná betur eyrum eigin stjórnvalda þá viku sem aðalþingið stendur.

Stjórn KRFÍ tilnefndi þrjá fulltrúa félagsins til setu á aðalþinginu; Þorbjörgu I. Jónsdóttur formann KRFÍ, sem einnig hefur setið í stjórn IAW síðastliðinn fimm ár, Margréti Steinarsdóttur gjaldkera KRFÍ, sem var í framboði til stjórnar IAW og undirritaðan framkvæmdastjóra félagsins. Auk þeirra voru Ásgerður Jóna Flosadóttir, sem er fulltrúi Frjálslynda flokksins í aðalstjórn KRFÍ og er jafnframt með einstaklingsaðild að IAW, og Elín Jónsdóttir sem unnið hefur að útgáfu 19. júní, ársriti KRFÍ, á undanförnum árum. Yfir helmingur félagsaðila IAW eru einstaklingar en aðildarfélögin hafa þó meira atkvæðavægi í kosningum samtakanna sem og við aðrar ákvarðanatökur.

IAW voru stofnuð til að berjast fyrir kosningarrétti kvenna. Í gegnum árin hafa bæst við þau baráttumál kvenna sem vantað hefur upp á að konur njóti til jafns á við karla. Rúmum hundrað árum eftir stofnun samtakanna eru enn mörg baráttumál kvenna að takast á við. Í Evrópu hafa kvenréttindakonur sett vændi, mansal, jafnlaunamálin og aukna þátttöku kvenna í stjórnmálum, stjórnun fyrirtækja og stofnana á oddinn, á meðan konur í fátækari löndum heimsins berjast oftar fyrir almennum mannréttindum s.s. bættri heilsu og menntun kvenna, kynbundnu- og menningartengdu ofbeldi og fl. Samtökin hafa ráðgefandi stöðu hjá ýmsum alþjóðastofnunum s.s. Sameinuðu þjóðunum og eiga fulltrúa í stjórnum og áheyrnarfulltrúa hjá alþjóðasamtökum- og stofnunum líkt og hjá Evrópuráðinu, Alþjóða stríðsglæpadómstólnum o.fl.

Þing IAW er sá vettvangur þar sem konum hvaðanæva úr heiminum gefst kostur á að skiptast á skoðunum og reynslu og álykta um helstu baráttumál samtakanna og aðildarfélaga þeirra. Samþykkt var á þinginu að meginstoðir allrar vinnu og framkvæmda samtakanna skyldu byggjast á réttlæti, mannréttindum, lýðræði, friði og afnámi alls ofbeldis gegn konum. Auk þessa voru samþykktar fimm ályktanir á þinginu, þar af ein sem flutt var af KRFÍ. Ályktanirnar er hægt að lesa í heild sinni á vefslóðinni www.womenalliance.org en þær lutu að heilsu kvenna og rétti til að ákvarða yfir eigin líkama; kröfu á hendur SÞ þess efnis að framfylgja stefnu sinni í málefnum Kosovo og tryggja jafnræði kynjanna í samningaviðræðum um framtíð þess; að trúarlegar- og menningarlegar hefðir skulu ekki standa í vegi fyrir því að mannréttindum verði framfylgt; friðarályktun þess efnis að hvetja ríkistjórnir um heim allan til að vinna heilshugar að því að binda enda á stríð, hryðjuverk og aðrar óeirðir sem bitna sérstaklega illa á konum og börnum; og síðast en ekki síst þá ályktun sem KRFÍ flutti um að styðja Amnesty International í herferð sinni fyrir rétti kvenna og stúlkna til fóstureyðinga þegar þungun hefur komið til vegna nauðgunar, sifjaspells eða stefnir lífi kvenna í hættu.

Margrét Steinarsdóttir var kosin í stjórn IAW og hlaut glæsilega kosningu með næstmestan atkvæðafjölda að baki sér. Var ákveðið að hún myndi leiða starf innan IAW varðandi mannréttindi og CEDAW-sáttmálann um afnám allrar mismununar gagnvart konum. Einnig mun Þorbjörg I. Jónsdóttir leiða áfram starf aðildarfélaga samtakanna á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum ásamt því að vera lögfræðilegur ráðgjafi nefndar um aðgerðir vegna ofbeldis gegn konum. Þáttur KRFÍ í starfi IAW verður því drjúgur næstu árin eins og hingað til og hefur KRFÍ átt tök á því að taka þátt í því starfi undanfarin ár vegna velvilja og stuðnings ráðherra og ráðuneyta. Samkvæmt stjórnarskrá IAW er hægt að sitja tvö þriggja ára kjörtímabil í stjórn samtakanna. Hlutfall kvenna frá Norðurlöndum innan stjórnar er nú sterkt, en ritari er frá Danmörku auk þess að kvenréttindasamtök frá Noregi og Svíþjóð hafa hver sinn fulltrúa í stjórninni. Áherslur kvenna á Norðurlöndum eiga sér því sterkan málsvara innan samtakanna og líta kvenréttindafélög annarra heimshluta mjög til árangurs okkar í jafnréttismálum.

Vakin skal athygli á því að allar konur sem láta sér málefni kvenréttinda og kvenfrelsis skipta geta orðið meðlimir IAW og í því sambandi er hægt að nálgast upplýsingar um samtökin á skrifstofu KRFÍ og tekur félagið jafnframt við skráningu í samtökin.

Höfundur er framkvæmdastjóri Kvenréttindafélags Íslands.