Stökkbreytt Blár augnlitur er eiginlega merki um litaskort.
Stökkbreytt Blár augnlitur er eiginlega merki um litaskort. — Morgunblaðið/Árni Torfason
ALLIR jarðarbúar sem hafa blá augu eiga sama forföður. Þetta eru niðurstöður danskra vísindamanna við Háskólann í Kaupmannahöfn. Að sögn Berlingske tidende hafa vísindamennirnir uppgötvað stökkbreytingu sem varð fyrir 6.000 til 10.

ALLIR jarðarbúar sem hafa blá augu eiga sama forföður. Þetta eru niðurstöður danskra vísindamanna við Háskólann í Kaupmannahöfn.

Að sögn Berlingske tidende hafa vísindamennirnir uppgötvað stökkbreytingu sem varð fyrir 6.000 til 10.000 árum í erfðamengi manneskju sem bar „bláeyga genið“ áfram til afkomenda sinna. Þessi stökkbreyting er ástæða augnlitar allra bláeygðra einstaklinga í dag.

Allir höfðu sömu brúnu augun til að byrja með að sögn vísindamannanna. Hins vegar hafði stökkbreytingin áhrif á OCA2-erfðavísinn sem stýrir svokölluðu P-próteini. Það hefur aftur áhrif á framleiðslu litarefnisins melaníns, sem gefur húð, augum og hári lit.

Gen við hliðina á OCA2-erfðavísinum þróuðust út í að verða svolitlir „stjórnhnappar“ sem geta dregið úr og aukið melanínframleiðsluna. Sé melanínið af skornum skammti „þynnist“ augnliturinn og verður blár sem eiginlega er merki um skort á lit í augunum frekar en að vera eiginlegur augnlitur.

Þetta sýnir að náttúran prófar stöðugt nýja möguleika með genamengi manneskjunnar, að sögn vísindamannanna.