Gleði Gunnar Einarsson, fyrirliði Keflavíkinga, hefur oft lyft bikar á loft.
Gleði Gunnar Einarsson, fyrirliði Keflavíkinga, hefur oft lyft bikar á loft. — Árvakur/Kristinn
Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson seth@mbl.is Gunnar Einarsson hefur ekki leikið með körfuknattleiksliði Keflavíkur í síðustu tveimur leikjum og samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur fyrirliðinn jafnvel hug á því að hætta að leika með liðinu.

Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson

seth@mbl.is

Gunnar Einarsson hefur ekki leikið með körfuknattleiksliði Keflavíkur í síðustu tveimur leikjum og samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur fyrirliðinn jafnvel hug á því að hætta að leika með liðinu. Gunnar vildi ekki tjá sig um málið í gær og benti á stjórn deildarinnar.

Birgir Már Bragason, formaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur, sagði í gær að Gunnar hefði ákveðið að taka sér frí frá körfubolta um stundarsakir.„Það eru ýmsar kjaftasögur í gangi þessa dagana um gang mála hjá okkur. Ég veit ekki hvað mönnum gengur til en kannski fer það í taugarnar á mörgum að við erum á toppi deildarinnar. Það er kalt en notalegt á toppnum,“ sagði Birgir Már en Keflavík er með 26 stig að loknum 15 umferðum, tveimur stigum fyrir ofan Íslandsmeistaralið KR. Hann vildi ekki ræða mikið um mál Gunnars Einarssonar. „Ég hef trú á því að Gunnar komi aftur til okkar. Hann er fjölskyldumaður og hann þurfti að fá hvíld frá körfuboltanum. Málið snýst ekki um peninga eða eitthvað slíkt og ég veit ekki til þess að það sé „kraumandi“ óánægja í leikmannahópnum. Við höfum heyrt það á undanförnum dögum að rekstur deildarinnar sé í tómu tjóni. Það hefur einnig verið nefnt að Magnús Gunnarsson og Jón N. Hafsteinsson séu á förum frá okkur. Þessar sögur eiga ekki við rök að styðjast og við eflumst bara við slíkt mótlæti,“ sagði Birgir.

Gunnar Einarsson er þrítugur að aldri og lék hann sinn fyrsta leik með Keflavík í efstu deild veturinn 1993-1994. Frá þeim tíma hefur hann leikið yfir 300 leiki og skorað tæplega 10 stig að meðaltali.