Bíddu! Í kulda getur verið freistandi að ganga.
Bíddu! Í kulda getur verið freistandi að ganga. — Árvakur/Ómar
Vísindamenn hafa komist að niðurstöðu: Það borgar sig nánast alltaf að bíða eftir strætó sem hefur seinkað frekar en að ganga sjálfur á áfangastað.

Vísindamenn hafa komist að niðurstöðu: Það borgar sig nánast alltaf að bíða eftir strætó sem hefur seinkað frekar en að ganga sjálfur á áfangastað.

Ef þú ert einn af þeim sem átt til að missa þolinmæðina þegar strætó seinkar og ganga í staðinn ættir þú að hugsa þig tvisvar um næst. Það er nefnilega nánast alltaf best að bíða eftir vagninum.

Vefsíða Berlingske tidende greinir frá því að hópur stærðfræðinga við Harvard-háskóla hafi útbúið formúlu fyrir tímann sem borgar sig að bíða eftir seinum strætó.

Formúlan sem stærðfræðingarnir settu fram reyndist býsna einföld og sýnir að það borgar sig nánast alltaf að bíða á fyrstu stoppustöðinni, óháð því hversu pirrandi biðin er. Í örfáum tilfellum virðist jafnan þó ekki ganga upp, t.d. þegar vagninn gengur sjaldnar en á klukkutíma fresti, eða þegar styttra en einn kílómetri er á áfangastað.

Ef maður nennir engan veginn að hanga eftir vagninum og ákveður að ganga er mikilvægt að halda þegar af stað í stað þess að bíða fyrst í svolitla stund, segja vísindamennirnir. Engu að síður er líklegt að maður komi seinna á áfangastað en ef maður hefði beðið eftir næsta vagni. Hins vegar gæti gangan verið þolanlegri en biðin.