Útvarpsmenn „Í sameiningu náum við að þekja ansi breitt svið. Ég er mikið í harðkjarna, pönki, „metal-core“-i og nýju þungarokki á meðan Egill fer oft út í djúpar öfgar.“
Útvarpsmenn „Í sameiningu náum við að þekja ansi breitt svið. Ég er mikið í harðkjarna, pönki, „metal-core“-i og nýju þungarokki á meðan Egill fer oft út í djúpar öfgar.“ — Árvakur/Valdís Thor
Eftir Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is NÝR þungarokksþáttur hóf göngu sína á X-inu 977 á sunnudagskvöldið. Þátturinn kallast Hrynjandi, er þriggja tíma langur og stendur yfir frá 19 til 22.

Eftir Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

NÝR þungarokksþáttur hóf göngu sína á X-inu 977 á sunnudagskvöldið. Þátturinn kallast Hrynjandi, er þriggja tíma langur og stendur yfir frá 19 til 22. Hrynjandi er í raun samsláttur tveggja þátta en umsjónarmenn verða þeir Egill Geirsson, sem áður sá um Babýlon á sömu stöð og Sigvaldi Ástríðarson, stundum þekktur sem Valli Dordingull, en þáttur hans dordingull.com var áður á dagskrá Reykjavík FM. Sú stöð hætti störfum eftir áramót, er í öllu falli lögst í híði sem ekki er vitað hvenær endar. Útvarpsþátturinn dordingull.com spratt á sínum tíma úr samnefndu netsvæði íslenska þungarokkssamfélagsins og hafði verið í loftinu nær óslitið síðan 2003. Babýlon hefur þá verið fastur liður í dagskrá X-ins um langa hríð en Egill tók við stjórnartaumunum þar snemma árið 2006.

Sigvaldi segir að sér lítist afar vel á þessa tilhögun enda hafi þeir Egill mæst nokkrum sinnum áður í útvarpi og sé samband þeirra með miklum ágætum. Það sé „chemistry“ á milli þeirra félaga sem hafi skilað sér í góðu útvarpi.

Þeir félagar hafa verið að undirbúa þáttinn og sníða til undanfarnar vikur. Þættinum verður skipt nokkurn veginn upp í þrennt, Valli ríður á vaðið fyrsta klukktímann og sér þá um lagaval en Egill sér um þau mál næsta klukkutíma á eftir. Lokaklukkustundin verður í höndum þeirra beggja og þá verður bryddað upp á ýmislegu.

„Í sameiningu náum við að þekja ansi breitt svið,“ segir Valli. „Ég er mikið í harðkjarna, pönki, „metal-core“-i og nýju þungarokki á meðan Egill fer oft út í djúpar öfgar og á það til að einbeita sér að einni stefnu. Um daginn spilaði hann t.d. eingöngu þunglyndislegt svartþungarokk. Við ætlum svo að setja ýmsa fasta og skemmtilega liði í loftið. Það verður tökulag vikunnar og svo ætlum við reglulega að grafa upp lélegasta þungarokkslag sem við finnum, hleypa því út í loftið og þrasa eitthvað um það. Ég og Egill höfum auðvitað ólíkar nálganir við þetta allt saman og það á hiklaust eftir að gefa þessu dálítinn djús.“

Þátturinn er í boði Tattoo 69, Laugavegi 69 og dordingull.com .