Eftir Sunnu Ósk Logadóttur sunna@mbl.

Eftir Sunnu Ósk Logadóttur

sunna@mbl.is

„UPPSAGNARBRÉFIN bárust starfsmönnum, því miður, milli níu og ellefu í gærkvöldi [fyrrakvöld],“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, um uppsagnir 64 starfsmanna HB Granda á Akranesi. HB Grandi hefur sagt að tuttugu starfsmenn verði ráðnir aftur.

Á miðvikudag fjallaði miðstjórn ASÍ um málið og skoraði á stjórn HB Granda að fresta uppsögnunum. Vilhjálmur segir málsókn næsta skrefið. Væntanlega mun Alþýðusambandið sjá um að reka málið fyrir dómstólum fyrir hönd verkalýðsfélagsins. Halldór Gröndvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, segir klárt að fyrirtækið hafi brotið lög, og sé „alveg klárlega ekki að haga sér í neinu samræmi við evrópskar reglur um hópuppsagnir.“

Hann segir inntak reglnanna vera að það geti ekki verið einhliða ákvörðun fyrirtækis að segja upp hópi fólks, það þurfi að gerast í samvinnu við fulltrúa starfsmanna. Eðlilegt sé að fyrirtæki hafi samráð við t.d. stéttarfélög eða Vinnumálastofnun um hvernig sé best að haga nauðsynlegum uppsögnum og aðstoða fólk sem sagt er upp.

„Grundvallaratriðið í okkar huga er einfaldlega að farið sé eftir lögum um hópuppsagnir, og upplýsinga- og samráðsferli klárað, sem hefði gefið okkur kost á því að koma fram með okkar athugasemdir og tillögur til að milda þessar uppsagnir,“ segir Vilhjálmur. „Það var því miður ekki vel að þessu staðið.“

Spurður um framhaldið segir Vilhjálmur: „Lög um hópuppsagnir eru gríðarlega mikilvæg íslensku launafólki. Alþýðusambandið telur að slíkt verði að verja með öllum tiltækum ráðum.“

Afgreitt á fjórum dögum

Málsókn er því næsta skref að sögn Vilhjálms. Tapist málið sé ljóst að lög um hópuppsagnir séu gölluð. „Ef hægt er að afgreiða þetta með þessum hætti, á fjórum dögum, þá þarf að endurskoða lögin, það liggur alveg fyrir. En ég tel að lögin séu hvellskýr hvað þetta varðar.“

Vilhjálmur bendir á að samráðsferlið hefði átt að fara fram, jafnvel þótt það hefði engu skilað. „Þá gætum við sagt að við hefðum reynt allt sem í okkar valdi stóð. Það er algjört virðingarleysi við fólk sem hefur unnið hjá fyrirtækinu í 40-50 ár að slíkt skuli ekki vera reynt.“

Halldór segir það ekki tilgang verkalýðshreyfingarinnar að stöðva hjól tímans. „Við erum ekki að gera þá kröfu að fyrirtæki séu með rekstur sem ekki stendur undir sér. En það verður að gefa fólki tækifæri til að koma fram með hugmyndir og tillögur.“

Vilhjálmur segir mikla óvissu ríkja meðal starfsfólksins. Tuttugu starfsmenn verði ráðnir aftur á næstu 14 dögum, en enginn viti hverjir og sé andrúmsloftið hjá starfsfólkinu nú rafmagnað.

Vilhjálmur minnir á að HB Grandi eigi gríðarlega sterka sögu í bæjarfélaginu. „Það er klárlega mikil depurð yfir fólki. Margir hverjir hafa eytt sinni starfsævi algjörlega hjá þessu fyrirtæki og því verða menn virkilega niðurdregnir.“

Hann segir það rétt sem fram hafi komið að atvinnuástand á svæðinu sé gott. „En þegar um er að ræða sérhæft fiskvinnslufólk sem ekki hefur starfað við annað í tugi ára getur myndast tómarúm hjá þeim einstaklingum. En að sjálfsögðu munu allir leggjast á eitt við að aðstoða alla eins og kostur er.“ | Miðopna

Í hnotskurn
» 64 starfsmenn HB Granda á Akranesi fengu uppsagnarbréf sent á miðvikudagskvöldið.
» Tuttugu þeirra verða ráðnir aftur.