[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Flórens er kjörin borg fyrir fólk sem hefur áhuga á list og hönnun og þangað kemur fólk alls staðar frá í heiminum til að stunda slíkt,“ segir Iris Ann Sigurðardóttir um uppáhaldsborgina sína og bætir við að Íslendingar megi læra margt af Ítölum um afslappað viðhorf til lífsins.

Eftir Kristjönu Guðbrandsdóttur

dista@24stundir.is

„Ég stundaði nám í Flórens í 2 ár og bjó þar um nokkurn tíma eftir að skólanum lauk. Ég var í listnámi, lærði sjónlist og ljósmyndun,“ segir Iris Ann. „Flórens er kjörin borg fyrir fólk sem hefur áhuga á list og hönnun og þangað kemur fólk alls staðar frá í heiminum til þess að læra slíkt.“

Andinn í borginni?

„Andinn er mjög afslappaður, en það er Ítalinn þekktur fyrir, eitthvað sem við Íslendingar höfum gott af því að læra. Þeir borða, labba og tala hægar, allt er gert á sínum tíma. Oftast jákvæður kostur, það er að segja ef þú þarft ekki að fara í bankann og í pósthúsið á sama degi. Algjör brandari að það sé ómögulegt að framkvæma það tvennt á sama deginum.“

Uppáhaldsveitingastaðurinn?

„Margir staðir koma til greina, til dæmis La Campanella (einfaldur en góður pitsastaður) og Baldovino (báðir nálægt Santa Croce). Ef það er eitthvað sem Ítalinn kann að gera þá er það að elda. Þeir leggja mikla áherslu á góða og einfalda matargerð þar sem aðalmálið er ferskleiki. Í Flórens er ekki skortur á fjölskylduveitingastöðum og þeir leggja allt sitt í matargerðina.“

Eftirminnileg máltíð?

„Pitsur og aftur pitsur. Ég hafði aldrei verið smámunasöm í sambandi við pitsur áður en ég flutti til Flórensborgar. Ofnbökuð pitsa með ferskum mozzarella og hlaðin fersku grænmeti er mér efst í huga núna og fæ ég vatn í munninn við að segja frá því.“

Uppáhaldsbúðirnar?

„Ég er mikið fyrir vintage búðir og ef þú leitar vel þá eru nokkrar skemmtilegar sem leynast í Flórens eins og Pitti Vintage og fleiri. Svo er einnig hægt að finna marga skemmtilega markaði eins og stóra antíkmarkaðinn á Santo Spirito-torgi. Markaðurinn er haldinn fyrsta sunnudag í hverjum mánuði.“

Uppáhaldsbarinn?

„The Jazz Club, neðanjarðardjassklúbbur. Mjög skemmtilegur staður með lifandi djasstónlist öll kvöld. Þangað koma aðallega Ítalir en stöku sinnum ferðamenn sem tínast þangað inn. Einnig er klúbbur sem heitir Eskimo, lítill en mjög skemmtilegur og lifandi klúbbur með lifandi tónlist; aðallega Ítalir sem sækja þangað, en það getur verið erfitt að finna staði sem eru ekki troðfullir af túristum.“

Á hvaða tíma árs er best að heimsækja borgina og af hverju ?

„Júní og júlí eru bestu mánuðirnir, fallegt veður og ekki of heitt. Borgin er dauð í ágúst því þá yfirgefa allir Ítalir heimilin sín og fara í frí. Einnig eru flest söfn og búðir lokaðar í ágústmánuði. Þeir sem vilja fara í söfnin án þess að bíða í röðum ættu að fara í september eða október.“

Hvað gerir þú í borginni sem þú gerir ekki annars? Ertu önnur manneskja í annarri borg?

„Ég er afslöppuð manneskja á Ítalíu og smitast af menningu þeirra, þar er ekki eins mikill hraði og er stundum hérna heima.“

Hvað finnst þér markvert að sjá í borginni?

„Listasöfnin og fallegu sveitirnar í kringum Toscania-héraðið, ekki fara frá Flórens án þess að fara í vínsmökkun!“