LeBron James
LeBron James
ÞAÐ borgar sig ekki að gera LeBron James reiðan. Því fengu leikmenn Portland að finna fyrir þegar þeir tóku á móti Cleveland í NBA-deildinni í körfuknattleik.

ÞAÐ borgar sig ekki að gera LeBron James reiðan. Því fengu leikmenn Portland að finna fyrir þegar þeir tóku á móti Cleveland í NBA-deildinni í körfuknattleik. Undir lok leiksins höfðu þeir varið skot frá James í tvígang og hann svaraði því með sigurkörfunni þegar þrjú sekúndubrot voru til leiksloka, 84:83.

„Við vitum að leikurinn er ekki búinn fyrr en það eru komin nokkur núll á klukkuna,“ sagði James ánægður eftir leikinn.

Zydrunas Ilgauskas, félagi James hjá Cleveland, sagði að hann hefði orðið svekktur þegar Joel Przbilla varði tvö skot frá honum. „LeBron var svekkur út í sjálfan sig og ákvað að taka þetta í sínar hendur. Ég held hann hafi ekki klikkað á skoti það sem eftir var,“ sagði Ilgauskas.

„Ég vildi bara gera allt sem ég gat til að við færum með sigur héðan. Ég veit ekki hvenær vendipunkturinn var í leiknum,“ sagði James, sem skoraði 17 stig í síðasta leikhlutanum, tveimur stigum meira en allt Portlandliðið. Hann fór hreinlega á kostum og undirstrikaði að líklega hefur enginn leikið betur í deildinni í vetur. Auk þess að skora 37 stig tók hann 14 fráköst.