Gunnþór Guðmundsson fæddist á Galtanesi í Víðidal 19. júní 1916. Hann andaðist á Heilbrigðisstofnuninni á Hvammstanga 22. janúar síðastliðinn og fór útför hans fram frá Hvammstangakirkju 29. janúar.

Það kom mér á óvart að heyra af andláti Gunnþórs því það var stutt síðan við áttum tal saman. Hann hafði lokið gríðarmiklu dagsverki. Bóndi, fræðimaður, listamaður og bókaútgefandi. Gunnþór var feikilega frjór og nýjum hugsunum og hugmyndum skaut sífellt upp í huga hans. Hann hafði alltaf eitthvað nýtt á takteinum.

Það eru um tuttugu ár síðan við hittumst fyrst, þá báðir rosknir menn. Hann var á ferðalagi að kynna bækurnar sínar. Við spjölluðum saman í drjúga stund og urðum strax góðir vinir. Gunnþór heimsótti mig síðar í Hólminn og dvaldi í nokkra daga. Ég átti þess einnig kost að heimsækja Gunnþór í Víðidalinn. Sú ferð var mér mikils virði, ég kynntist mörgu sem ég hafði ekki séð, enda þótt ég hefði oftsinnis lagt leið mína um þetta fagra hérað, þaðan sem konan mín var fædd og uppalin. Gunnþór vildi hag þjóðarinnar sem mestan og allt sem hann lét frá sér í skrifum og listum var mannbætandi. Hann var maður hollra lífshátta og vildi stuðla að heilbrigðara líferni. Framúrskarandi leiðsögumaður á ótalmörgum leiðum lífsins.

Ég vil þakka Gunnþóri öll þau góðu símtöl sem við áttum saman. Í haust fékk ég frá honum bók sem hann ritaði sjálfur. Í bréfi sem fylgdi bókinni gat hann þess að nú væri rithöfundaferli sínum lokið. Veikindin voru farin að herja á hann vægðarlaust. Nú er ég einum vininum fátækari.

Þessi fáeinu orð eru þakkir til Gunnþórs fyrir samfylgdina sem reyndist okkur báðum til mikillar blessunar. Hann var einlægur og góður drengur sem mátti ekki vamm sitt vita og alltaf til í að hjálpa þeim sem voru útundan í þjóðfélaginu. Ættjarðarvinur er kvaddur og ég bið honum og fólkinu hans blessunar Drottins með innilegri samúðarkveðju.

Árni Helgason, Stykkishólmi.