Morðóður rakari Johnny Depp í hlutverki morðóða rakarans við Fleet-stræti og Helena Bonham Carter sem frú Levitt, í Sweeney Todd: The Demon Barber of Fleet Street .
Morðóður rakari Johnny Depp í hlutverki morðóða rakarans við Fleet-stræti og Helena Bonham Carter sem frú Levitt, í Sweeney Todd: The Demon Barber of Fleet Street .
FJÓRAR kvikmyndir verða frumsýndar í dag í íslenskum kvikmyndahúsum. Tvær eru tilnefndar til Óskarsverðlauna, Atonement og Sweeney Todd: The Demon Barber of Fleet Street . Atonement Atonement byggir á samnefndri skáldsögu Ian McEwan.

FJÓRAR kvikmyndir verða frumsýndar í dag í íslenskum kvikmyndahúsum. Tvær eru tilnefndar til Óskarsverðlauna, Atonement og Sweeney Todd: The Demon Barber of Fleet Street .

Atonement

Atonement byggir á samnefndri skáldsögu Ian McEwan. Í henni segir af rithöfundinum Briony Tallis sem leitar friðþægingar fyrir að hafa 13 ára gömul logið upp á vonbiðil systur sinnar, Ceciliu. Sá heitir Robbie Turner. Tallis lýgur upp á hann glæp til að koma í veg fyrir að þau Cecilia geti verið saman. Turner er handtekinn og Tallis vitnar gegn honum. Með þeim illa verknaði breytir hún varanlega lífi þeirra þriggja, þ.e. sínu eigin, systur sinnar og Turner. Með aðalhlutverk fara Keira Knightley og James McAvoy.

Metacritic: 85/100

IMDb: 8/10

Sweeney Todd: The Demon Barber of Fleet Street

Myndin byggir á samnefndum Broadway-söngleik Stephens Sondheims og segir af rakaranum Benjamin Barker sem tekur sér nafnið Sweeney Todd. Rakarinn á harma að hefna því spilltur dómari laug upp á hann sökum og sendi hann í útlegð til Ástralíu. Dómarinn nauðgaði að því loknu eiginkonu hans sem svipti sig lífi í kjölfarið. Todd opnar rakarastofu í Lundúnum, fyrir ofan kjötbökubúð frú Lovett sem fræg er fyrir að selja verstu bökur borgarinnar. Todd ákveður að losa borgina við spilltan aðalinn og drepur mann og annan í rakarastólnum. Fórnarlömbin eru svo matreidd af frú Lovett sem býr til úr þeim ljúffengar kjötbökur, þær bestu í borginni.

Með aðalhlutverk fara Johnny Depp og Helena Bonham Carter.

Metacritic: 83/100

IMDb: 8.2/10

Walk Hard: The Dewey Cox Story

Í þessari gamanmynd segir af tónlistarmanninum Dewey Cox, gleði hans, sorgum og sveiflukenndum tónlistarferli. Cox er rokkstjarna, sængar hjá 411 konum, giftist þremur, eignast 22 börn og 14 fósturbörn, stýrir eigin sjónvarpsþætti, eignast vini á borð við Elvis Presley, Bítlana og simpansa, neytir allra mögulegra eiturlyfja og fer í meðferð. Með aðalhlutverk fara John C. Reilly, Jenna Fischer og Raymond J. Barry.

Metacritic: 63/100

IMDb: 7/10

Untraceable

Leyniþjónustukonan Jennifer Marsh tekst á við fjöldamorðingja sem leikur sér að henni líkt og köttur að mús. Titill myndarinnar ( Órekjanleg ) vísar í vefsíðu morðingjans. Á henni myrðir hann fólk í beinni útsendingu en ekki reynist hægt að rekja slóð síðunnar. Forvitnir netverjar fara í auknum mæli að fylgjast með hryllingnum . Með aðalhlutverk fara Diane Lane og Billy Burke.

Metacritic: 32/100

IMDb: 6.1/10