Samtökin Human Rights Watch gagnrýna Bandaríkin, ríki Evrópusambandsins og önnur lýðræðisríki harkalega í skýrslu sem kom út í gær fyrir að leyfa einræðisherrum að sveipa sig ljóma lýðræðis án þess að tryggja borgaraleg og pólitísk réttindi.

Samtökin Human Rights Watch gagnrýna Bandaríkin, ríki Evrópusambandsins og önnur lýðræðisríki harkalega í skýrslu sem kom út í gær fyrir að leyfa einræðisherrum að sveipa sig ljóma lýðræðis án þess að tryggja borgaraleg og pólitísk réttindi. Segja samtökin að með þessu sé verið að grafa undan mannréttindum um allan heim.

Kenneth Roth, framkvæmdastjóri Human Rights Watch, segir í skýrslunni að sjaldan hafi lýðræði verið hampað jafn mikið og á okkar dögum og sjaldan hafi verið jafn mikið brotið gegn því. „Fáar ríkisstjórnir vilja að þær séu taldar ólýðræðislegar,“ skrifar Roth. „Afrekaskrá hinna yfirlýsingaglöðu er ekki í samræmi við vaxandi vinsældir lýðræðis. Nú reyna jafnvel yfirlýstir einræðisherrar að komast á stallinn sem fylgir lýðræðisstimplinum. Staðráðnir í að láta ekki lítilfjörlegar staðreyndir standa í veginum hafa þessir ráðamenn tileinkað sér list lýðræðislegs málflutnings sem er í litlum tengslum við stjórnarhætti þeirra.“

Samtökin saka síðan lýðræðisríkin um pólitíska hentisemi. Þau krefjist þess að fram fari kosningar en láti það nægja. „Svo virðist sem Washington og ríkisstjórnir í Evrópu sætti sig við jafnvel vafasömustu kosningar svo fremi að „sigurvegarinn“ sé hernaðarlegur eða viðskiptalegur bandamaður,“ segir Roth.

Lýðræði er annað og meira en kosningar. Í lýðræði felst að fólkið ráði. Það er því ekki nóg að ganga til kosninga reglulega ef aðrar grundvallarstofnanir lýðræðisríkisins eru ekki til staðar til þess að veita valdhöfunum aðhald, hvort sem um er að ræða málfrelsi, frjálsa fjölmiðla, fundafrelsi eða virkt réttarríki.

Lýðræði á víða undir högg að sækja í heiminum í dag, meira að segja í þeim ríkjum þar sem það er rótgrónast. Baráttan gegn hryðjuverkum hefur skapað andrúmsloft þar sem borgaralegum réttindum er stefnt í hættu. Ráðamenn í lýðræðisríkjum eiga ekki að umgangast einræðisherra með þeim hætti að það jafnist á við viðurkenningu stjórnarhátta þeirra.

Þegar Serbar hófu þjóðernishreinsanir í Kósóvó skarst Nató réttilega í leikinn. Þegar Rússar réðust inn í Tétsníu með miklu grimmilegri hætti og jöfnuðu Grosní við jörðu fengu þeir skömm í hattinn og svo héldu viðskiptin áfram eins og ekkert hefði í skorist. Áratugum saman hafa staðið yfir árangurslausar viðskiptaþvinganir gegn Kúbu en Kínverjar fá að halda ólympíuleika og spígspora með leiðtogum lýðræðisríkja á rauðum dreglum eins og ekkert sé athugavert við stjórnarhætti þeirra. Lýðræðisstimpillinn er eftirsóttur og auðfenginn ef afstaðan er rétt eða mátturinn nægur.