Hættulega kalt Spáð er 15 stiga frosti um helgina og jafnvel meira frosti í innsveitum. Til að forðast tjón er fólki ráðlagt að aðgæta sumarbústaði.
Hættulega kalt Spáð er 15 stiga frosti um helgina og jafnvel meira frosti í innsveitum. Til að forðast tjón er fólki ráðlagt að aðgæta sumarbústaði. — Árvakur/Ómar
BRUNAGADDI er spáð víða á landinu um helgina. Mest verður frostið í dag og á morgun, allt að fimmtán stig á Suðvesturlandi, en að líkindum mun kaldara inn til landsins. Þessu fylgir mikil tjónahætta og því ástæða til að vara fólk við.

BRUNAGADDI er spáð víða á landinu um helgina. Mest verður frostið í dag og á morgun, allt að fimmtán stig á Suðvesturlandi, en að líkindum mun kaldara inn til landsins. Þessu fylgir mikil tjónahætta og því ástæða til að vara fólk við.

Um tíu vatnstjónstilfelli urðu vegna frosts hér á landi í janúarmánuði, að sögn Einars Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Forvarnahúss Sjóvár, mörg hver ansi slæm. Því er ástæða til að taka aðvaranir alvarlega, enda fyrsti alvöru kuldakaflinn að hefjast. Einar segist helst vara einstaklinga og forsvarsmenn fyrirtækja við fjórum atriðum.

Gott að auka hitann

Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að aðgæta bílskúra og geymslur sem ekki eru hitaðar upp að fullu. Margir stilla hita í slíkum rýmum í kringum fimmtán gráður, en nauðsynlegt getur verið að hækka vel í honum rétt á meðan frostið gengur yfir svo ekki frjósi í lögnum.

Hið sama á við um sumarbústaði. Einar mælir með því að fólk hækki hitann í sumarhúsum sínum, eða fái einhvern til að gera það fyrir sig komist það ekki sjálft á staðinn. Þetta á ekki síst við um þá bústaði þar sem hitaveituvatn er tekið inn í hús, því ef lögn springur geta heitt vatn og gufa flætt inn í húsið dögum saman og valdið mjög miklum skemmdum.

Bílar og pottar líka í hættu

Í öðru lagi er æskilegt að fólk láti athuga frostþol vatnskassans í bílum sínum. Það er hægt að láta gera á flestum bensínstöðvum og bæta frostlegi á ef þurfa þykir.

Þá getur þurft að auka hita á heitum pottum, bæði í heimahúsum og sumarbústöðum, eða tæma þá algerlega og hleypa vatni af þeirra kerfi.

Hjá Forvarnahúsinu er í síðasta lagi varað við bilunum í loftræstikerfum fyrirtækja. Virki loftinntök ekki nógu vel getur orðið ofkæling í hitatækjum og heitavatnsrör sprungið uppi í þiljum. Þannig getur tjón orðið mikið, enda úðast þá heitt vatn yfir tækjabúnað og gögn.