Gleði Lessing stillir sér upp fyrir ljósmyndara með Nóbelsverðlaunin.
Gleði Lessing stillir sér upp fyrir ljósmyndara með Nóbelsverðlaunin.
BRESKI rithöfundurinn Doris Lessing tók í fyrrakvöld við bókmenntaverðlaunum Nóbels, sem hún hlaut að vísu í desember í fyrra. Lessing gat ekki veitt þeim viðtöku þá í Svíþjóð sökum heilsubrests, orðin 88 ára gömul.

BRESKI rithöfundurinn Doris Lessing tók í fyrrakvöld við bókmenntaverðlaunum Nóbels, sem hún hlaut að vísu í desember í fyrra. Lessing gat ekki veitt þeim viðtöku þá í Svíþjóð sökum heilsubrests, orðin 88 ára gömul. Hún tók þess í stað við þeim í Wallace Collection-safninu í Lundúnum.

Lessing sagði þakkir einar vart duga til að lýsa ánægjunni yfir því að hafa hlotið verðlaun verðlaunanna í bókmenntum. „Það er undravert og ótrúlegt,“ sagði Lessing um þann heiður. Hærra yrði ekki komist.

Lessing sló líka á létta strengi og sagði að e.t.v. myndi páfinn klappa henni á kollinn. Hún minntist föður síns og sagði að sér fyndist hún heyra í honum segja við sig: „Nú ferðu fram úr sjálfri þér, stúlka mín. Mér líkar það ekki.“

Sendiherra Svía í Lundúnum, Staffan Carlsson, studdi Lessing upp á svið og sagði að nú hlyti hún þau verðlaun sem hún hefði lengi átt skilið að fá. Leikararnir Alan Rickman og Juliet Stevenson lásu upp úr nýjasta verki Lessing, Alfred and Emily , sem kemur út í maí á þessu ári. Lessing er ellefta konan sem hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels.