Lausafé Stjórnarformaður Exista, Lýður Guðmundsson, segir félagið standa vel að vígi nú, enda sé lausafjárstaða Exista mjög ásættanleg.
Lausafé Stjórnarformaður Exista, Lýður Guðmundsson, segir félagið standa vel að vígi nú, enda sé lausafjárstaða Exista mjög ásættanleg. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HAGNAÐUR Exista eftir skatta nam 573,9 milljónum evra, jafnvirði um 55,6 milljarða króna á núvirði og jókst um 34,5% milli ára.

HAGNAÐUR Exista eftir skatta nam 573,9 milljónum evra, jafnvirði um 55,6 milljarða króna á núvirði og jókst um 34,5% milli ára. Á síðasta ársfjórðungi var 295,6 milljóna evra tap á rekstri félagsins, samanborið við 147 milljóna evra hagnað á sama tímabili árið 2006. Miklar sviptingar á fjármálamörkuðum á fjórða ársfjórðungi höfðu veruleg áhrif á virði eigna félagsins og óvenjulega skarpt verðfall á mörkuðum reyndi á undirstöður félagsins.

Skipulagsbreytingar

Í tilkynningu kemur fram að í lok janúar í ár hafi Exista haft aðgang að tryggu lausafé sem nemi endurfjármögnunarþörf félagsins vel fram til ársins 2009, eða í 69 vikur.

Skipulagsbreytingar hafa orðið á starfsemi Exista og hefur fyrirtækið hætt verðbréfaviðskiptum fyrir eigin reikning. Hefur fjórum starfsmönnum á miðlaraborði því verið sagt upp, en alls starfa nú 30 manns í höfuðstöðvum Exista.

Mun ákvörðun þessa efnis hafa verið tekin í fyrra og hafði félagið losað allar stöður tengdar þessum viðskiptum um áramótin síðustu. Markmið skipulagsbreytinganna er sagt vera að undirstrika enn frekar fjármálaþjónustu sem kjarnastarfsemi félagsins. Tvö ný stoðsvið, Rannsóknir og Fjárstýring, hafa verið sett á laggirnar í því skyni. Afkoma á fjórða ársfjórðungi mun skýrast að hluta vegna skipulagsbreytinganna og sölu á eignasöfnum tengdum viðskiptum fyrir eigin reikning.

Heildartekjur samstæðunnar námu 961,5 milljónum evra og munar þar mestu um hlutdeildartekjur í hagnaði Sampo og Kaupþings. Við útreikning á hlutdeild Exista í hagnaði félaganna er miðað við spár markaðsaðila á hagnaði fyrirtækjanna og koma frávik raunverulegs hagnaðar frá áætluðum hagnaði til tekna eða gjalda í næsta uppgjöri.

Tvöföldun eigna

Þá námu vá- og líftryggingagjöld 91,2 milljónum evra, en starfsemi VÍS telst inn í samstæðureikninginn. Árið 2006 nam þessi tala 87,7 milljónum evra. Tekjuskattur var jákvæður fyrir Exista í fyrra upp á um 48,2 milljónir evra, en það skýrist af tekjuskattsskuldbindingu sem leyst var upp á fyrsta fjórðungi ársins. Eignir félagsins nær tvöfölduðust á árinu, voru tæpir 4,4 milljarðar evra árið 2006 en voru rúmir 8 milljarðar í fyrra. Eigið fé jókst um 474 milljónir evra og var við árslok 2007 2,4 milljarðar.

Arðsemi eigin fjár árið 2007 var 23% á ársgrundvelli og hagnaður um hlut 5,11 evrur, sem er 18,8% hækkun frá árinu 2006.

Traust lausafjárstaða

Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Exista, segist ánægður með reikninga félagsins, þrátt fyrir að þeir markist vissulega af erfiðu árferði.

„Í öllum okkar áætlunum gerum við ráð fyrir því að markaðir geti tekið stefnuna niður á við og vorum því vel búin undir ástandið sem nú ríkir.“ Bendir hann á að lausafjárstaða Exista sé mjög sterk og geti það enst félaginu í 69 vikur, gerist þess þörf. „Þetta þýðir að við munum ekki þurfa að selja neinar af okkar kjarnaeignum og stendur það ekki til. Þá munum við ekki þurfa að leita endurfjármögnunar fyrr en um mitt næsta ár og munum því geta staðið af okkur óróleikann sem verið hefur á mörkuðum.“

bjarni@mbl.is