Rakavandamál Þegar rakamettað murefni í læsingunnifrýs þarf oft að taka hurðarspjaldið af, hita læsinguna með hárþurrku sé hún frosin föst.
Rakavandamál Þegar rakamettað murefni í læsingunnifrýs þarf oft að taka hurðarspjaldið af, hita læsinguna með hárþurrku sé hún frosin föst. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur svarar fyrirspurnum á leoemm@simnet.is (Ath. bréf geta verið stytt). Eldri spurningar og ýtarlegri svör eru birt á www.leoemm.com. Slit eða brot í framvagni Spurt: Hlaup er í stýrinu á Renault Megane 2000 árgerð.
  • Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur svarar fyrirspurnum

    á leoemm@simnet.is

    (Ath. bréf geta verið stytt).

    Eldri spurningar og ýtarlegri svör eru birt á www.leoemm.com.

    Slit eða brot í framvagni

    Spurt: Hlaup er í stýrinu á Renault Megane 2000 árgerð. Fyrir nokkru kviknaði ABS-ljósið og lýsir stöðugt. Bíllinn leitar ýmist til vinstri eða hægri þegar stýrinu er sleppt. Mest finnur maður fyrir þessu á nýlegu malbiki. Ég nefndi þetta með ABS ef tengsl gætu verið þarna á milli.

    Svar: Tjakkaðu bílinn upp að framan, öðrum megin í einu, og taktu á framhjólunum. Ef þú getur fært hjólið til lárétt, inn/út, – þ.e. ef þú finnur lárétt hlaup er slit í stýrisenda eða stýrisvél/hjörulið. Sé lóðrétt hlaup merkjanlegt (þegar þú tekur á hjólinu efst og neðst) er slit í spindilkúlu sem er neðst í hjólfestingunni. Demparaskál, sem neðri hluti gormsins hvílir á, getur verið brotin eða demparinn ónýtur/laus í stýringunni að ofan (og ABS-leiðsla hjólsins slitin sundur). Framhjólslegur hafa gefið sig í Renault en því fylgir urghljóð þegar lagt er á stýrið. Kannaðu ástandið (slitið) strax því bíllinn getur verið hættulegur.

    Eyðslumælir getur verið villandi

    Spurt: Ég keypti Chevrolet Captiva 7 manna dísil og er mjög ánægður með bílinn að öðru leyti en mæling mín á eyðslu bendir til að hún sé meiri en eðlilegt telst, sérstaklega í innanbæjarakstri. Samkvæmt upplýsingum umboðs á eyðslan að vera um 8,5 í blönduðum akstri. Þú gefur upp í prófunargrein 7,4-7,6 lítra á www.leoemm.com? Spurningin er hvað telst eðlileg eyðsla?

    Svar: Í örfáum tilvikum hefur sambandsleysi í tengi á loftflæðisskynjara valdið aukinni eyðslu í Chevrolet Captiva og hefur verið lagfært hjá þjónustuumboði. Eyðsla Captiva dísil er innan við 8 lítrar á jöfnum hraða á þjóðvegi (af gefnu tilefni mælt af mér í akstri Keflavík-Selfoss-Keflavík). Tölurnar í prófunargreininni eru svokallað ECE-meðaltal samkvæmt staðli UN ECE R101 og á að vera samanburðargrundvöllur frekar en nákvæm mæling á eyðslu (bílaframleiðendur reyna ýmislegt til að lækka þá tölu sem því ber að taka með fyrirvara). Stafrænir eyðslumælar í bílum sýna eyðslu á stað og stund. T.d. 14 lítra þegar tekið er af stað á ljósum og minnkandi þar til eðlilegum hraða hefur verið náð. Sami mælir sýnir 7,8 lítra á 90 km jöfnum hraða á þjóðvegi! Sé borgarakstur 60% af notkun bílsins er meðaleyðslan samkvæmt eyðslumælinum um 11 lítrar sem ekki getur talist mikið fyrir 7 manna fjórhjóladrifsbíl.

    Frosnar læsingar

    Spurt: Á fjögurra ára LandRover Freelander lokast bílstjóradyrnar ekki eftir slyddu/regn og frost. Ég get opnað en ekki lokað. Hefur þetta eitthvað með læsinguna að gera?

    Svar: Ástæðan er rakamettað smurefni í læsingunni sem frýs. Oftast þarf að taka hurðarspjaldið af, hita læsinguna með hárþurrku sé hún frosin föst. Úða blöndungshreinsi (Carburator Cleaner/úðabrúsi) á læsingarbúnaðinn í hurðinni og í falsinu og blása hreint með þrýstilofti. Læsinguna á að smyrja með vaxefni (ekki smurfeiti eða smurolíu); svonefndu holrýmavaxi sem fæst á úðabrúsum. Eftir það á hún að virka eðlilega.