Risar Olíuflutningaskipið The Bright Artemis er 146,463 tonn að stærð, en ráðgert er að umferð um 100.000 tonna olíuskipa muni aukast við Ísland.
Risar Olíuflutningaskipið The Bright Artemis er 146,463 tonn að stærð, en ráðgert er að umferð um 100.000 tonna olíuskipa muni aukast við Ísland. — AP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Baldur Arnarson baldura@mbl.is „VIÐ erum búnir að gera áhættumat fyrir Suðvesturlandið miðað við núverandi siglingar.

Eftir Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

„VIÐ erum búnir að gera áhættumat fyrir Suðvesturlandið miðað við núverandi siglingar. Nú eru að opnast skipasiglingarnar frá Múrmansk í Rússlandi vestur um haf sem breyta áherslum viðbragðsaðila,“ segir Kristján Geirsson, deildarstjóri á sviði umhverfisgæða hjá Umhverfisstofnun, um breytt siglingamynstur í námunda við Ísland.

Verið er að byggja geysistóra gámaflutningahöfn í Múrmansk, en ráðgert er að hún muni geta meðhöndlað þrjár milljónir gámaeininga á ári. Höfnin er hugsuð til pólsiglinga og mun anna 500 skipum á ári.

Til samanburðar er áætlað að 300.000 til 350.000 gámaeiningar séu afgreiddar hjá íslensku gámafyrirtækjunum á ári um land allt.

Síðar kunni að opnast siglingaleið frá Kyrrahafi um Síberíuströnd.

Aðspurður hvort búist sé við mikilli umferð skipa frá Kína, sökum þess að siglingaleiðin um norðurskautið opnast samfara hopi íssins, segir Kristján óvíst hvort sú leið verði greiðfær og þá hvort umferð fari hjá Íslandi. Bæði Norðmenn og Rússar hafi áætlanir um að reisa stórar umskipunarhafnir og það geti haft áhrif á siglingarmynstrið.

Kristján gerði grein fyrir breyttu áhættumati á vel sóttu málþingi á vegum Stofnunar Sæmundar fróða í gær, ásamt Ásgrími L. Ásgrímssyni, yfirmanni vaktstöðvar siglinga hjá Landhelgisgæslunni.

Aukin skipaumferð eykur líkur á alvarlegu mengunarslysi við Íslandsstrendur, áhætta sem gæti valdið hagkerfinu miklum búsifjum, með tilliti til þess að siglt er um hrygningarsvæði helstu nytjastofnanna suður af landinu. Það er m.a. af þessu sökum sem uppi eru hugmyndir um að færa siglingaleiðirnar lengra frá landinu, en Umhverfisstofnun er kölluð til verði stór óhöpp.

Miklir flutningar frá Múrmansk

Ásgrímur fjallaði um umfang olíuflutninga frá Múrmansk í erindi sínu og um fyrirhugaða gámaflutningahöfn í borginni, en talið er að 80-100 milljón tonn af olíu verði flutt þaðan 2015. Miðað við að sama hlutfall olíumagns fari vestur um haf megi gera ráð fyrir að 17 til 22 milljónir tonna muni fara um íslenska lögsögu, eða 370 til 480 skip að óbreyttu. Við þetta bætist að Rússar áætli að taka Stockman-gasvinnslusvæðið í notkun 2014, það stærsta í heimi. Þá stefni Norðmenn á að byggja upp gámaflutningahöfn í Narvik, Noregi, og að reikna megi með að 300 gámaskip fari þaðan til N-Ameríku á ári.

Í hnotskurn
» Reiknað er með að olíuskip komi með jarðolíu til vinnslu við fyrirhugaða olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum á fjögurra daga fresti, og að þrír öflugir dráttarbátar verði við stöðina sem afgreiði skipin og verði til taks hendi eitthvað stór skip við Ísland.
» Íslendingar eiga nú í viðræðum við Dani og Norðmenn um að farþegaskipum verði skylt að sigla tvö og tvö í hafinu norður af Íslandi, svo auka megi líkur á farsælli björgun komi til alvarlegs slyss.

Þörf fyrir nýtt varðskip

„ÞAÐ geta skapast þannig aðstæður og þannig sjólag að við ráðum illa við mjög stór skip. Þess vegna óskum við eftir því að þessar siglingar verði færðar fjær ströndinni,“ segir Halldór Nellett, yfirmaður aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, um þörfina fyrir nýtt skip vegna vaxandi skipaumferðar. „Fjarlægðin gefur okkur meiri tíma til að bregðast við óhöppum. Eftir því sem skipin eru fjær landi hafa skipverjar meiri tíma til að freista viðgerðar, ef mögulegt er.“

Halldór tekur fram að umrætt skip sé enn aðeins á hugmyndastiginu, en ef af yrði þyrfti jafnstórt skip og nú er í smíðum í Chile og afhent verður á síðari hluta næsta árs.

Skipið sem þörf er á myndi kosta svipað og það sem er verið að smíða, eða um þrjá milljarða króna.

Það varðskip hefur um 120 tonna togkraft, eða rúmlega helmingi meiri en Týr og Ægir, sem hafa um 55 tonna togkraft. Er talin þörf á auknum togkrafti eftir því sem umferð stórra skipa þyngist við landið.

Um yrði að ræða fjölnotaskip sem sinnti fiskveiðieftirliti og almennri löggæslu á hafinu umhverfis Ísland. Það yrði búið fullkomnum sjómælingabúnaði og fjölgeislamæli, en Halldór segir mörg af hafsvæðunum umhverfis landið ómæld og að mikið verk sé óunnið í þeim efnum.

Skipið yrði jafnframt búið mjög fullkomnum mengunarvarnabúnaði og varnargirðingu til að hefta útbreiðslu olíu, ásamt góðu tankarými til að dæla 600 til 800 tonnum af olíu um borð í skipið ef aðstæður leyfa.

Halldór vildi taka fram að dómsmálaráðuneytið hefði eflt gæslu við Íslandsstrendur, m.a. með nýju varðskipi og flugvél, auk þess sem fyrirhugað væri að efna til samstarfs við Norðmenn um þyrlukaup.