Akureyri Bæjarbúar hafa verið einstaklega heppnir síðustu mánuði.
Akureyri Bæjarbúar hafa verið einstaklega heppnir síðustu mánuði.
Eftir Skapta Hallgrímsson skapti@mbl.is ÓTRÚLEGT en satt: Akureyringur hreppti fyrsta vinning í fjórföldu lottói síðasta laugardag og varð tæpum 22 milljónum króna ríkari.

Eftir Skapta Hallgrímsson

skapti@mbl.is

ÓTRÚLEGT en satt: Akureyringur hreppti fyrsta vinning í fjórföldu lottói síðasta laugardag og varð tæpum 22 milljónum króna ríkari. Og þó, kannski ekki svo ótrúlegt því stórir vinningar fara að verða vani hjá íbúum höfuðstaðar Norðurlands! Frá því í apríl í fyrra, á níu mánuðum, hafa bæjarbúar alls unnið 210 milljónir króna í lottói og víkingalottói. Og eru þá bara taldir „stórir“ vinningar en eflaust hafa einhverjir „litlir“ fylgt með.

Fékk tvo „stóra vinninga“

Ævintýrið hófst í apríl þegar Akureyringur fékk 10 milljónir króna í lottóinu, helming af fjórföldum fyrsta vinningi.

Vinningshafi síðustu helgar hefur þegar gefið sig fram og að sögn talsmanns Íslenskrar getspár var hann yfir sig ánægður en vildi alls ekki ræða við fjölmiðla. Það vildi heldur ekki sá sem vann stærsta vinninginn, maður á sjötugsaldri sem í haust vann hvorki meira né minna en 105 milljónir króna í víkingalottóinu; hann var einn með allar tölurnar réttar þegar potturinn var tvöfaldur.

Skömmu fyrir jól vann svo maður á Akureyri 54 milljónir króna í víkingalottóinu og hann var auðvitað í sjöunda himni þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gær. Sagðist reyndar hafa unnið annan og enn stærri vinning stuttu síðar, vegna þess að þá fæddist þeim hjónum heilbrigt stúlkubarn. Eiginkonan var lögst á fæðingardeildina þegar dregið var í víkingalottóinu, nokkrum dögum fyrir fæðingu barnsins, og fékk fréttirnar á sængina.

„Það var auðvitað mjög ánægjulegt að vinna og eitthvað sem ég átti alls ekki von á enda hef ég nánast aldrei tekið þátt í svona; ég hef ekki einu sinni átt happdrættismiða en einstaka sinnum keypt miða í víkingalottóinu þegar maður heyrir auglýstan risapott eða margfaldan íslenskan bónuspott. Þá hef ég stundum keypt mér miða á netinu.“

Falin myndavél?

Vinningsmiðann keypti maðurinn einmitt í tölvunni sinni á netinu en fylgdist ekki með drættinum og kom því af fjöllum þegar hringt var í hann morguninn eftir og honum tilkynnt um vinninginn.

„Þeir vissu hver ég var fyrst ég keypti miðann á netinu.“ Fyrst hélt hann að vinnufélagarnir væru að stríða sér; að komið hefði verið fyrir falinni myndavél og einhver væri að taka upp myndband fyrir árshátíðina. „Ég verð að viðurkenna að það var það fyrsta sem kom upp í huga mér. Svo fékk ég líka sendan tölvupóst til að staðfesta þetta. En það má segja að þetta hafi fyrst orðið raunverulegt þegar vinningurinn var borgaður út, um miðjan janúar,“ sagði maðurinn í gærdag.

Hann segist ekki farinn að nota peningana enn þá og gantaðist með að það væri aldeilis lán að hann hefði fengið vinninginn núna en ekki ári áður. „Þá hefði ég kannski keypt mér einhver hlutabréf og væri hugsanlega búinn að tapa öllum peningunum aftur!“ sagði viðkomandi við Morgunblaðið.

Í hnotskurn
» Engir tveir vinningsmiða Akureyringa hafa verið keyptir á sama stað. Maðurinn sem fékk stærsta vinninginn, 105 milljónir, keypti miðann í Hagkaupum, sá sem fékk 54 milljónir keypti sinn miða á netinu, einn var seldur í verslun Úrvals í Hrísalundi og annar í Ak-Inn. Lukkustaðirnir í bænum eru því margir.