Samhengi Innblástur að verkinu er sóttur í niðurstöður rannsókna dr. Magnúsar Magnússonar. Útlit verksins byggir á því grafíska mynstri sem forrit hans skapar út frá hegðunarmynstri barna að leika með bolta.
Samhengi Innblástur að verkinu er sóttur í niðurstöður rannsókna dr. Magnúsar Magnússonar. Útlit verksins byggir á því grafíska mynstri sem forrit hans skapar út frá hegðunarmynstri barna að leika með bolta.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sýningin stendur til 9. febrúar

UNDANFARIN ár hafa víða komið fram áherslubreytingar í hönnun og þeirri merkingu sem hinn hannaði hlutur á að fela í sér. Með aukinni fjöldaframleiðslu ódýrs varnings sem oft og tíðum er eftiröpun gæðahönnunar hefur átt sér stað ákveðin þróun í hönnun þar sem velt er upp spurningunni um hlutverk og tilvísun hönnunarinnar og gildismat neytenda. Til hafa orðið vörur sem byggja frekar á hugmyndinni, inntaki og sérstöðu en á hagstæðu verði og magni. Eftirsókn eftir vörunni byggist á sérstöðu hennar en ekki því hversu auðvelt er að eignast hana.

Í Gallery Turpentine stendur nú yfir mjög athyglisverð hönnunarsýning og er þetta í fyrsta sinn sem hönnun er sýnd þar. Sýningin er unnin í samvinnu tveggja hönnuða, Sigríðar Sigurjónsdóttur, iðnhönnuðar og prófessors í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands, og Snæfríðar Þorsteins, grafísks hönnuðar. Við fyrstu sýn mætti ætla að hér væri um einskonar innsetningu í rýmið að ræða en svo er ekki heldur er markvisst unnið út frá hugmyndakveikju úr heimi vísindanna. Sýningin er sölusýning og eru verkin búin til í takmörkuðum fjölda og vísar framleiðslan þannig til þeirra hræringa í hönnun sem minnst er hér á að ofan, um endurmat á gildi hönnunar, og um leið er leikið með þau óljósu og óræðu mörk sem víða eru að myndast á milli hönnunar og listar. Hinsvegar er inntak sýningarinnar um hlutverk byggt á atferlisrannsóknum dr. Magnúsar S. Magnússonar, vísindamanns og forstöðumanns Rannsóknarstofnunar um mannlegt atferli við Háskóla Íslands, og því mynstri sem mannleg hegðun myndar og hvernig það getur haft áhrif á mótun hluta og umhverfis. Hvernig sérhver einstaklingur mótar ákveðið hegðunarmynstur í kringum hlutina og hvernig þeir eru nýttir á mismunandi hátt. Magnús hefur með hugbúnaði sínum, Theme, varpað nýju ljósi á hulin mynstur í samskiptum; allt frá taugafrumum til menningarmynstra.

Verkin eru endurtekning á því reglulega mynstri sem hver og einn byggir upp í kringum sjálfan sig og ákveðna hluti. Þau miða að því að koma skipulagi á þá óreiðu sem skapast jafnan með einföldum, síendurteknum athöfnum hvunndagsins. Þannig skapast með notkuninni ný hegðunarmynstur í kringum hönnunina sem eru síðan hluti af stærri heild. Flest verk sýningarinnar eru einhvers konar upphengi en ekki er notkun þeirra alltaf jafnaugljós, og rannsókn Magnúsar ekki alltaf jafnnærri verkunum. Fjöldi virkilega áhugaverðra muna er á sýningunni og hafa þeir notagildi jafnframt því að vera til prýði og eru þannig leikur með notagildishlutverkið. Má þar nefna upphengið Samhengi þar sem leikið er með tvíræðni verksins sem hlutar með notagildi eða sem veggskúlptúrs og um leið er leikið með merkingu orðsins „samhengi“ og útlit hlutarins, sem er gerður úr samtengdum pólýhúðuðum álplötum. Nýstárlegar eru dagatalasúlur sem Snæfríð Þorsteins hefur unnið með Hildigunni Gunnarsdóttur, þar sem riðlað er hefðbundnu skipulagi okkar á tíma, sem að jafnaði miðast við almenna uppsetningu dagatala eða dagbóka í vikur og mánuði, en súlurnar eru gerðar fyrir skipulag til 8 ára. Fjölmarga aðra áhugaverða hluti mætti minnast á, og eins hvað frumlega og húmoríska framsetningu varðar, en hún er á fleiri en einum stað styrkt á skondinn hátt með myndum úr skjávarpa.

Sýningin er í heild sinni bæði falleg og áhugaverð, byggð á skemmtilegum samtengingum og vísunum í merkilegar pælingar og hentar ákaflega vel inn í sýningarrýmið. Mappa með upplýsingum liggur frammi í afgreiðslu og skrá yfir verkin, en sjálfsagt hefði mátt gera þeim grunni sem pælingarnar eru byggðar á betri skil. Slíkt hefði ekkert gert nema að auka og auðga upplifun gesta sýningarinnar og styrkja þær vangaveltur sem eru í gangi víða um tilgang og hlutverk hönnunar í nútímasamfélagi, því þrátt fyrir allar hegðunarrannsóknir má velta því fyrir sér hvort það sé ekki hin stóra spurning sýningarinnar.

Elísabet V. Ingvarsdóttir

Höf.: Elísabet V. Ingvarsdóttir