Vinningshafi Eyrún Björnsdóttir, blaðberi desembermánaðar, ásamt Maríu L. Viðarsdóttur frá dreifingardeild Árvakurs.
Vinningshafi Eyrún Björnsdóttir, blaðberi desembermánaðar, ásamt Maríu L. Viðarsdóttur frá dreifingardeild Árvakurs.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
VEÐRIÐ það sem af er vetri hefur óneitanlega reynst blaðburðarfólki nokkuð strembið, en öflug liðsheild lætur það ekki á sig fá til lengri tíma litið.

VEÐRIÐ það sem af er vetri hefur óneitanlega reynst blaðburðarfólki nokkuð strembið, en öflug liðsheild lætur það ekki á sig fá til lengri tíma litið. Tveir blaðberar Árvakurs, þau Örn Andrésson og Eyrún Björnsdóttir, sköruðu fram úr í blaðberakapphlaupi í nóvember og desember og hljóta þau ferðaúttekt hjá Heimsferðum í viðurkenningarskyni.

Að sögn Eyrúnar, sem borið hefur út Morgunblaðið í Hraunbæ undanfarin 3 ár, hefst vaktin kl. 6 á morgnana og tekst henni vanalega að klára hverfið sitt kl. 6.45. „Síðan mæti ég til vinnu kl. 8,“ segir hún. „Maður lætur sig hafa það að fara út í hvaða veðri sem er,“ bætir hún við kímin. Daglega ber hún út 250 blöð, að Morgunblaðinu og 24 stundum meðtöldum. „Þetta er góð morgunhressing. Stundum hefur færðin verið það slæm að ég hef þurft að taka manninn minn með mér til að geta klárað blaðburðinn fyrir kl. sjö. En það hefst á endanum.“

Hressandi að vakna snemma

Örn Andrésson, blaðberi nóvembermánaðar, hefur borið út síðan í ágúst 2007 og kann starfinu vel en hann ber einnig út póst í hlutastarfi eftir hádegið. „Ég kann ágætlega við blaðburðinn og það er hressandi að vakna snemma á morgnana,“ segir hann. Örn hefur þann vana á að vakna kl. 5 á morgnana og er búinn með blaðburðinn fyrir kl. sjö. Ég er með um 100 blöð og ber út í þremur götum. Í vetur hefur stundum reynst strembið að bera út vegna veðurs, en hins vegar hefur maður stundum sloppið á undan veðrinu þegar maður er snemma á ferðinni.“