Eftir Önund Pál Ragnarsson onundur@mbl.is Á YFIRSTANDANDI skólaári er þegar orðin 9% fjölgun umsókna um störf leiðbeinenda við íslenska framhaldsskóla frá síðasta ári. Þetta kemur fram í vefriti menntamálaráðuneytisins.

Eftir Önund Pál Ragnarsson

onundur@mbl.is

Á YFIRSTANDANDI skólaári er þegar orðin 9% fjölgun umsókna um störf leiðbeinenda við íslenska framhaldsskóla frá síðasta ári. Þetta kemur fram í vefriti menntamálaráðuneytisins.

Undanþágunefnd framhaldsskóla tekur til afgreiðslu umsóknir forstöðumanna framhaldsskóla um heimild til að lausráða starfsmenn sem ekki hafa leyfi menntamálaráðherra til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari.

Umsóknir sem borist hafa nefndinni eru nú orðnar 72 miðað við 66 á síðasta skólaári. Þar af hefur nefndin samþykkt 68 umsóknir. Frá skólaárinu 2003-2004 hefur samþykktum umsóknum jafnt og þétt fækkað úr 157 niður í 63, eða í kringum 20% á ári að jafnaði. Í þessum efnum eru því að verða umskipti.

3,8% aukning í grunnskólum

Hliðstæð nefnd afgreiðir umsóknir forstöðumanna grunnskóla um slíkar heimildir. Tölur benda til þess að 3,8% fjölgun verði í umsóknum um störf leiðbeinenda við grunnskólana. Þær eru nú orðnar 571 miðað við 550 á síðasta skólaári, en þar af hefur nefndin samþykkt 420 umsóknir og synjað 151.

Einnig kemur fram í vefritinu að leyfisveitingum ráðherra til grunnskóla- og framhaldsskólakennara til að nota þau starfsheiti fjölgaði mikið frá aldamótum til ársins 2006. Leyfisveitingum til grunnskólakennara hefur fjölgað um 173% en leyfisveitingum til framhaldsskólakennara um 93,3%.