Bátasmíði Annar báturinn sem fer nú til Noregs er hálfyfirbyggður línubátur.
Bátasmíði Annar báturinn sem fer nú til Noregs er hálfyfirbyggður línubátur. — Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson
Seigla ehf. á Akureyri hefur samið um smíði á um 10 plastbátum fyrir Norðmenn. Tveir þessara báta voru sjósettir í vikunni og verða þeir afhentir eigendum innan tíðar.

Seigla ehf. á Akureyri hefur samið um smíði á um 10 plastbátum fyrir Norðmenn. Tveir þessara báta voru sjósettir í vikunni og verða þeir afhentir eigendum innan tíðar. Bátarnir eru af gerðinni Seigur 1100 W og eru þeir rétt innan við 11 metra langir og 4,6 metrar á breidd.

,,Tveir bátar af gerðinni Seigur voru seldir til Noregs á síðasta ári, þar af var annar þeirra frá Siglufjarðarseig. Við höfum staðið fyrir markaðsátaki í Noregi sem er nú að skila sér með þessum góða árangri. Bátasmíðin hefur verið mjög lífleg fyrir íslenzka markaðinn undanfarin misseri. Þar er nú að hægjast um og því er ánægjulegt að norskir smábátasjómenn skuli vera að taka svona hraustlega við sér,“ segir Sverrir Bergsson, sölustjóri hjá Seiglu ehf. á Akureyri, í samtali við Morgunblaðið.

Bátarnir fara báðir til Karlsöy í Noregi. Annar þeirra er hálfyfirbyggður línubátur með beitningarvél en hinn er opinn netabátur. 10 aðrir bátar hafa verið pantaðir og verða afhentir á næstu 15 mánuðum. Seigur 1100 W er sérhannaður fyrir norska smábátasjómenn en báturinn er áþekkur Seig 1250 W sem smíðaður hefur verið fyrir íslenzka krókaaflamarkskerfið, t.d. Sæunn Sæmundsdóttir ÁR. Norska smábátakerfið er byggt á lengdartakmörkum, sem þessir bátar eru sniðnir að, en þeir eru 10,99 metrar á lengd og 4,6 metrar á breidd og eru þeir því breiðasti báturinn í boði í þessum stærðarflokki.

Tonnatalan skiptir ekki máli en bátarnir mundu líklegast mælast 18 tonn miðað við íslenzkar reglur. Þeir eru stórir og rúmgóðir með miklu dekkplássi. Lestin er stór og rúmar 25 stykki af 450 lítra körum. Í lúkar er svefnpláss fyrir 5 manns fyrir utan borðstofu og aðstöðu til eldunar. Í lúkar og stýrishúsi er hiti í gólfi. Bátarnir geta gengið 26 mílur. Vélin í öðrum þeirra er 14 lítra Yanmar 700 hestafla en í hinum er 16 lítra Volvo Penta 750 hestafla vél.

Seigur ehf. hefur hannað tvær gerðir af bátum fyrir norska markaðinn sem eru innan 11 metra lengdarmarkanna 1100 W og 1100 T. Þeir eru svipaðir í útliti, nema að 1100 T er ekki eins breiður og1100 W. Þá er Seigla með einn 15 metra bát í smíðum fyrir Norðmenn, sem telst einnig vera smábátur, og verður hann afgreiddur í maí næstkomandi. Sverrir sagði að sá bátur væri stærsti plastbátur sem smíðaður hefur verið á Íslandi.

,,Mikil eftirspurn er í Noregi eftir smábátum frá Seiglu. Það er vandaður frágangur og breidd bátsins sem vekur miklar eftirvæntingar hjá Norðmönnum ásamt þeirri sérstöðu Seiglubátanna að þeir eru allir útbúnir fellikili. Fellikjölurinn eykur stjórnhæfni bátsins langt umfram aðra sambærilega báta, sérstaklega við erfiðar aðstæður. Þessi búnaður hefur vakið verðskuldaða athygli,“ segir Sverrir.