Tyrkland Marmaris á Tyrklandi er vinsæll áfangastaður
Tyrkland Marmaris á Tyrklandi er vinsæll áfangastaður
Ferðabæklingur Úrvals Útsýnar fyrir árið 2008 kom út um síðustu helgi og hefur strax vakið mikla athygli, að sögn Þorsteins Guðjónssonar, forstjóra Úrvals Útsýnar. „Það stefnir í fínt ferðaár.
Ferðabæklingur Úrvals Útsýnar fyrir árið 2008 kom út um síðustu helgi og hefur strax vakið mikla athygli, að sögn Þorsteins Guðjónssonar, forstjóra Úrvals Útsýnar. „Það stefnir í fínt ferðaár. Við höfum allavega ekki upplifað aðrar eins móttökur og í ár. Fólk er þegar farið að bóka ferðir út og þetta fer mjög hratt af stað,“ segir Þorsteinn og bætir við að það sé sífellt minna um að fólk bóki ferðir á síðustu stundu. „Undanfarin þrjú ár hefur nánast allt verið uppselt og þeir sem ætluðu sér að panta ferðir seint hafa því gripið í tómt.“ Aðspurður hvaða áfangastaður sé vinsælastur segir Þorsteinn að Marmaris í Tyrklandi sé geysilega vinsæll staður. „Á Marmaris erum við að bjóða upp á stórar og fínar íbúðir sem hafa mælst vel fyrir hjá fjölskyldufólki. Það er mjög hagstætt verðlag þar, ágætis veður auk þess sem á Marmaris er annar menningarheimur þannig að fólk upplifir ferðina sem meira ferðalag. Svo bjóðum við vitanlega upp á þessa klassísku staði eins og Portúgal, Tenerife, Mæjorka, Alicante og Krít. Krít er ólík hefðbundnum ferðamannastöðum að því leyti að íbúarnir halda mjög fast í sína menningu, sem gerir staðinn öðruvísi og sjarmerandi fyrir vikið. Tenerife sló algjörlega í gegn hjá okkur á síðasta ári og er fyrsti sólaráfangastaðurinn sem er vinsæll tólf mánuði á ári. Við fljúgum því þangað tvisvar á viku nánast allt árið um kring.“