Nicolas Sarkozy
Nicolas Sarkozy
MIKIÐ hefur dofnað yfir vinsældum Nicolasar Sarkozys, forseta Frakklands, og hafa þær ekki verið minni en nú síðan hann tók við embætti. Er það einkum frammistaða hans í efnahagsmálum, sem fólk er óánægt með.

MIKIÐ hefur dofnað yfir vinsældum Nicolasar Sarkozys, forseta Frakklands, og hafa þær ekki verið minni en nú síðan hann tók við embætti. Er það einkum frammistaða hans í efnahagsmálum, sem fólk er óánægt með.

Sarkozy var kosinn forseti fyrir átta mánuðum og ekki síst vegna þess, að hann lofaði að láta hendur standa fram úr ermum í efnahagsmálunum. Mörgum finnst nú sem hann hafi lítið gert af því og ný könnun sýnir, að hann hefur nú stuðning 41% kjósenda en 55% eru óánægð með hann. Hefur hann hrapað um átta prósentustig á einum mánuði. Í mars verða sveitarstjórnarkosningar og leggja sósíalistar áherslu á, að í þeim muni kjósendur kveða upp sinn dóm yfir forsetatíð Sarkozys til þessa.

„Sarkozy í frjálsu falli“ var aðalfyrirsögnin í dagblaðinu Le Parisien í gær og þar sagði, að „tími vonbrigða“ væri runninn upp.

Snemma í síðasta mánuði viðurkenndi Sarkozy, að hann gæti lítið gert til að auka almennan kaupmátt enda væru „allir sjóðir ríkisins tómir“. Fyrir kosningar lofaði hann hins vegar að verða forsetinn, sem yki kaupmátt og hagvöxt og drægi úr atvinnuleysi.

Franskir launþegar hafa áhyggjur af afkomunni og því hafa fréttir og myndir af því ljúfa lífi, sem Sarkozy og Carla Bruni, ný vinkona hans, lifa ekki farið sérstaklega vel í franska kjósendur.