Guðrún Jónsdóttir fæddist í Brekku í Aðaldal 26. apríl 1923. Hún lést á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri 16. janúar síðastliðinn og var jarðsungin frá Akureyrarkirkju 25. janúar.

Guðrún Jónsdóttir lést hinn 16. janúar sl. og var jarðsungin 25 jan. og Ingvi Júlíusson lést 9. júlí 1995. Mig langar að minnast aðeins tengdaforeldra minna, eða afa og ömmu í Rán, eins og krakkarnir sögðu alltaf.

Eitt er það sem allir vita að lífið er ekki eilíft á þessari jörð, en samt er alltaf söknuður hjá þeim sem eftir lifa. Minningarnar eru góðar og lifa með okkur. Þegar litið er til baka sjáum við fallegt heimili, allt hreint og í röð og reglu. Ilmandi kaffi og bakkelsi á borðum, þú varst þessi dæmigerða fyrirmyndarhúsmóðir, sem alltaf var gott að koma til. Börnin sóttu í leik með afa, hann hafði endalausa þolinmæði að leika með þeim og það var alltaf mikið fjör. Á meðan kom kleinu- eða ástarpungalykt úr eldhúsinu hjá ömmu og síðan var kallað í alla í kaffi. Ekki var nú heldur slæmt fyrir þau að fá að dunda í skúrnum með afa, þar leyndist nú ýmislegt sniðugt, enda var hann búinn að koma sér upp góðum smíðagræjum eftir að hann hætti að vinna. Jakob minn ætlaði sko að eiga svona skúr eins og afi þegar hann væri orðinn stór.

Ingvi og Guðrún voru líka mjög hjálpleg og vildu öllum vel.

Alltaf var hægt að fá góð ráð hjá ömmu með saumaskap, sem annað, hún fann alltaf út hvernig best væri að leysa hlutina, enda vann hún við sauma og var auk þess alltaf að sauma eitthvað fallegt heima fyrir. Það var spjallað heilmikið á meðan unnið var og svo yfir kaffibolla á eftir þegar saumaskapnum lauk. Það var mikill missir og erfitt að verða ein eftir nærri 50 ára hjónaband, þegar Ingvi féll skyndilega frá. Þið gerðuð og fóruð nærri allt saman, svo þú misstir líka bílstjórann þinn. Eftir það fórum við stundum saman að versla og það var gaman hvað þú hafðir alltaf mikla skoðun á hlutunum, þú keyptir þá ekki nema þér líkaði vel við þá, hvort sem það var matur eða gjöf. Mér fannst þú hafa góðan smekk og það bar á honum líka eftir að þú varst orðin veik, þú vildir vera fín og Dísa hjálpaði þér við það síðustu árin þín hér. Góð húsmóðir undirbýr næsta dag, þannig undirbjóst þú þig líka fyrir næsta líf. Við vitum að þér líður betur núna þegar þú ert komin í himnaríki, nú getur þú saumað fyrir guð og afi smíðað.

Elsku tengdamamma og amma, takk fyrir allt, minningarnar lifa í hjarta okkar.

Rósa.

Elsku amma.

Að undanförnu hafa margar góðar minningar farið í gegnum huga minn. Kleinur, ástarpungar, laugardagsgrautur, saumastundir og laufabrauðsútskurður, þetta eru nokkrar af mörgum góðum minningum sem tengja mig við þig. Í eldhúsinu man ég eftir mynd þar sem stóð: „Leiðin að hjartanu er í gegnum magann.“ Því fylgdir þú eftir eins og sannri ömmu sæmir. Það var alltaf eitthvað gott á boðstólum, ef ekki kleinur eða ástarpungar, þá eitthvað annað. Þú hafðir hlýtt hjarta og man ég vel eftir sumrunum þegar ég vann í ÚA og skrapp stundum til ykkar afa í hádegismat og hve mikilvægt þér fannst að ég legði mig stutta stund og það þýddi ekkert að mótmæla. Svo vaktir þú mig varlega eftir 20 mínútur. Mér þótti virkilega vænt um þetta. Þú varst ákveðin kona og vildir öllum vel.

Við höfum mikið talað um þig og afa síðustu daga og ég hef sagt krökkunum að nú líði þér vel. Nú ertu komin aftur til afa, en mér fannst stór hluti af þér fara með honum þegar hann dó.

Nú kveð ég þig, elsku amma, og mun halda fast um minningar mínar um þig.

Selma Björg.