Í skýrslunni um Ísland á innri markaði Evrópu, sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra kynnti Alþingi í gær, er fróðlegt yfirlit um það hvernig löggjöf Evrópusambandsins, sem Ísland hefur nú þegar innleitt, skarast við þá lagabálka, sem nýjum...

Í skýrslunni um Ísland á innri markaði Evrópu, sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra kynnti Alþingi í gær, er fróðlegt yfirlit um það hvernig löggjöf Evrópusambandsins, sem Ísland hefur nú þegar innleitt, skarast við þá lagabálka, sem nýjum aðildarríkjum sambandsins er gert að taka upp.

Af 35 köflum, sem farið er yfir í aðildarviðræðum, eru 22 að meira eða minna leyti orðnir hluti af íslenzku regluverki með EES- og Schengen-samningunum. Aðrir samningar við ESB taka yfir hluta af nokkrum köflum í viðbót. Í skýrslunni er réttilega bent á að af yfirlitinu megi „glöggt ráða hversu mikinn þátt Ísland tekur í Evrópusamrunanum án þess þó að vera fullgildur aðili að ESB.“

Þetta eru athyglisverðar staðreyndir í ljósi þess, að ein helzta röksemd margra sem ekki vilja taka skrefið til fulls inn í ESB, er að aðild myndi auka svo regluverk og skrifræði hér á landi. Regluverkið og skrifræðið höfum við að stórum hluta innleitt nú þegar og berum sömu skyldur og fullgilt aðildarríki ESB, en án þess að hafa að sama skapi áhrif á reglurnar. Engu að síður eru næstum því allir sammála um að EES-aðildin hafi að langflestu leyti stuðlað að gríðarlegum framförum á Íslandi.

Þegar litið er á þá kafla, sem út af standa, ber hæst landbúnaðar- og sjávarútvegsmál, tollamál, skattamál, utanríkis- og varnarmál og gjaldmiðilssamstarfið. Af þessum málaflokkum eru það líklega aðeins sjávarútvegsmálin, sem gætu raunverulega orðið erfið viðfangs í aðildarviðræðum við ESB.

Vitlausara landbúnaðarregluverk en það sem við rekum nú fáum við ekki annars staðar. Í tollamálum er Ísland, rétt eins og ESB, bundið af reglum Heimsviðskiptastofnunarinnar og við höfum raunar hengt okkur utan á ESB-ríkin í viðræðum um t.d. niðurfellingu tolla á landbúnaðarvörum. Í utanríkis- og varnarmálum erum við nú þegar í nánu samstarfi við ríki ESB, sem flestöll eru í NATO. Þótt raddir séu uppi í ESB um skattasamræmingu hefur ekkert orðið af henni og aðildarríkin keppa enn innbyrðis í skattapólitík.

Og hvað gjaldmiðilssamstarfið varðar virðast æ fleiri, sérstaklega í viðskiptalífinu, telja það svo eftirsóknarvert að þeir vilja ekki einu sinni bíða eftir aðild að ESB, en vilja evruna strax.

Í rauninni er ESB-aðild ekki svo stórt eða íþyngjandi skref, þegar þetta er haft í huga.