Eftir Agnesi Bragadóttur agnes@mbl.is VIÐSKIPTI með um 2% hlut í Kaupþingi voru gerð í Kauphöllinni í Stokkhólmi í fyrradag, kl. 9.11 að staðartíma, á genginu 72,9 (sænskar krónur á hlut), fyrir samtals tæplega 11 milljarða íslenskra króna.

Eftir Agnesi Bragadóttur

agnes@mbl.is VIÐSKIPTI með um 2% hlut í Kaupþingi voru gerð í Kauphöllinni í Stokkhólmi í fyrradag, kl. 9.11 að staðartíma, á genginu 72,9 (sænskar krónur á hlut), fyrir samtals tæplega 11 milljarða íslenskra króna.

Viðskiptin jafngilda því að veittur hafi verið um 14% afsláttur frá því verði sem bréf í Kaupþingi fóru á fyrir og eftir viðskiptin, en þau viðskipti voru á genginu 84,5 og 84,75.

Kaupþing annaðist bæði sölu og kaup en samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var Kaupþing hér að kaupa fyrir arabíska fjárfesta, sem sagðir eru vera frá Katar.

Aftur veittur afsláttur

Athygli vekur að Kaupþing fer aftur þá leið að selja erlendum fjárfestum hlut í bankanum á undirverði því í hlutafjárútboði bankans í nóvember 2006 þar sem gefnar voru út 66 milljónir nýrra hluta á genginu 750 kr. fyrir hlutinn sem jafngilti þá um 7% afslætti frá markaðsgengi.

Í kjölfar þess að afsláttarkjörin voru gerð opinber miðvikudaginn 22. nóvember 2006 féll gengi bréfa í Kaupþingi um 3,13%.

Afsláttarkjör Kaupþings til erlendra fjárfesta í útboðinu fyrir 14 mánuðum sættu mikilli gagnrýni meðal innlendra fjárfesta, einkum smærri hluthafa í Kaupþingi, sem héldu því fram að með þessum afslætti væru forsvarsmenn bankans þar með að rýra þeirra eign.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem aflað hefur verið er ekki búist við samskonar gagnrýni í kjölfar ofangreindrar sölu.

Benda heimildamenn Morgunblaðsins á að markaðsaðstæður nú séu gjörólíkar þeim sem voru á seinnihluta árs 2006 þegar framboð fjármagns var mikið og fjármagnið var á viðráðanlegum kjörum.

Hvorki náðist í Hreiðar Má Sigurðsson, forstjóra Kaupþings, né Sigurð Einarsson, stjórnarformann Kaupþings, í gærkvöld.