Siv Friðleifsdóttir
Siv Friðleifsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fáránleg spurning Dómaraskipan var enn á ný rædd á Alþingi í gær en Árni Þór Sigurðsson , VG, gerði ályktun Dómarafélags Íslands að umræðuefni og vildi m.a.

Fáránleg spurning

Dómaraskipan var enn á ný rædd á Alþingi í gær en Árni Þór Sigurðsson , VG, gerði ályktun Dómarafélags Íslands að umræðuefni og vildi m.a. fá svör forsætisráðherra við því hvenær settur dómsmálaráðherra fékk málið til meðferðar og hversu langan tíma hann notaði til að skoða það. Geir H. Haarde sagði spurninguna fáránlega enda væri ekki hægt að ætlast til þess að ráðherra hefði á takteinum einstakar dagsetningar í óundirbúnum fyrirspurnartíma. Geir áréttaði hins vegar að nefndin hefði metið alla umsækjendur hæfa og að ráðherra hefði ekki getað skipað óhæfan einstakling.

Lýsi á línuna

Það er ekki gaman að eiga Norðurlandamet í hlutfalli transfitusýra í mat, sagði Siv Friðleifsdóttir , Framsóknarflokki, á þingi í gær og kallaði eftir breyttri löggjöf til að vernda Íslendinga fyrir þessum slæmu sýrum. Siv sagði um 50 þúsund manns falla frá árlega í Evrópu vegna sjúkdóma tengdra transfitusýrum, en að Íslendingar hefðu vörn í lýsinu . „Á meðan við erum ekki búin að laga til hjá okkur þá er mjög brýnt að allir taki lýsi.“

Ekki æfingabúðir

„Ísland á ekki að vera í hlutverki æfingabúða fyrir orrustuflugmenn erlendra ríkja og hæstvirtir ráðherrar ríkisstjórnarinnar ættu að sjá sóma sinn í því að tryggja öryggi flugfarþega og afþakka bara að öllu leyti herflugsæfingar við landið,“ sagði Steinunn Þóra Árnadóttir , VG, á þingi í gær og vildi viðbrögð frá utanríkisráðherra við fregnum um að orrustuþotur danska hersins hefðu farið of nálægt farþegaþotum á flugi.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagðist myndu skoða þessi mál en að ekki væri ástæða til að draga fram samlíkingu milli þessara tilfella í Danmörku og æfingaflugs hér á landi. Gengið væri þannig frá málum að ekki ætti að vera hætta á ferðum.