Hannes Jónas Eðvarðsson
Hannes Jónas Eðvarðsson
Hannes Jónas Eðvarðsson skrifar um heilbrigðismál og fordóma: "Léttum þeim skrefin sem búa við bresti í geðheilbrigði, höldum umræðunni málefnalegri og fræðandi."

ÞAÐ er erfitt að komast í gegnum lífið án þess að skapa sér þumalputtareglur. Ein þeirra er að flokka fólk í hópa eftir einkennum t.a.m. fjölmiðlafólk, pólitíkusa, heilbrigðisstarfsfólk, útlendinga, öfgasinna o.s.frv. Þessi flokkun einfaldar okkur lífið en jafnframt getur hún stuðlað að því að viðhalda fáfræði. Þessu fylgir einn stór galli. Við höfum nefnilega tilhneigingu til að óttast það sem við þekkjum ekki. Þar af leiðandi miklum við fyrir okkur galla þá er við teljum að einkenni það sem við þekkjum ekki. Ef við erum nógu dugleg við að mikla þessa galla fyrir okkur endum við uppi með fordóma. Fordóma, sem oft eru byggðir á afskaplega veikum grunni, en hafa hins vegar gríðarlega mikil áhrif.

Eitt af því sem við höfum tilhneigingu til að hafa fordóma gagnvart eru geðsjúkdómar. Það er svo sem skiljanlegt að þeir veki okkur ugg í brjósti. Það er óhugnanleg tilhugsun að einhver heyri raddir, sjái það sem ekki er, einangri sig í vanlíðan eða brjóti af sér allar hömlur siðmenntaðs samfélags. Það er enn óhugnanlegra að velta þeirri staðreynd upp að slíkt gæti komið fyrir mann sjálfan. Staðreyndin er hins vegar sú að líkur eru á að flest okkar muni upplifa sveiflur í geðheilbrigði, alveg eins og við upplifum sveiflur í líkamlegu heilbrigði. Við megum búast við því að upplifa geðlægð, depurð eða jafnvel þunglyndi. Slíkt getur gerst við fráfall náins ættingja, atvinnumissi, fjárhagslegt áfall eða af óskilgreindum orsökum. Það skiptir ekki máli hver forsendan er, niðurstaðan er sú sama: breyting á geðheilbrigði.

Þegar við upplifum sveiflur á líkamlegu heilbrigði þykir okkur sjálfsagt að leita læknis. Annað mál er oft upp á teningnum þegar geðheilbrigði okkar bíður hnekki. Forsendur þess geta verið margar en ekki er laust við, í ljósi umræðu sl. viku, að það hvarfli að mér að fordómar sem þrífast meðal okkar hafi þar áhrif. Þessi stimplun að vera „gúgú“ „galinn“ „klikk-haus“ eða eitthvað þaðan af verra er hamlandi þegar kemur að því að leita sér aðstoðar.

Ágæta fjölmiðlafólk. Gangið nú í lið með okkur hinum og styðjið okkur í því að draga úr fordómum með því að halda á lofti málefnalegri umfjöllun um geðheilbrigði. Drögum úr fordómum og léttum þeim skrefin sem þurfa að leita sér aðstoðar vegna bresta í geðheilbrigði.

Munum: Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Höfundur er sálfræðingur og félagsráðgjafi.