Hver er beztur?
Hver er beztur? — Árvakur/Ómar
Auglýsingar geta verið sérstakt fyrirbrigði. Það fer ekki á milli mála að þær eru nauðsynlegar til þess að koma á framfæri upplýsingum til neytenda sem hugsanlega vantar það sem verið er að auglýsa.

Auglýsingar geta verið sérstakt fyrirbrigði. Það fer ekki á milli mála að þær eru nauðsynlegar til þess að koma á framfæri upplýsingum til neytenda sem hugsanlega vantar það sem verið er að auglýsa. Samkeppnin snýst um það að ná til væntanlegra kaupenda og skjóta keppinautunum ref fyrir rass. Því verða auglýsingarnar að hitta í mark, vera nógu eftirtektarverðar til þess að fólk taki eftir þeim og noti ekki auglýsingatímann til að standa upp frá sjónvarpinu og rétta úr sér eða sinna öðrum erindum.

Þegar litið er á auglýsingar um bíla fer ekki á milli mála að frumleikinn er oftast mikill. Bílarnir spila íshokkí, þeir eru notaðir eins og hjólabretti, þeir breytast í alls kyns ófreskjur sem æða yfir fjöll og firnindi. Bílar fljúga jafnvel og gera alls konar kúnstir. Nú er líklega öllum ljóst að ekkert af þessu gengur upp og enginn hugsanlegur kaupandi er að leita að bíl sem býr yfir þessum einstöku eiginleikum. Það virðist vera í undantekningatilfellum að kostum bílanna sé í raun og veru lýst. Hver er búnaður þeirra, eru þeir sparneytnir, er þeir rúmgóðir, eru þeir kraftmiklir? og svo framvegis. Skipta þessar upplýsingar kannski engu máli?

Hjörtur Gíslason