Fyrir 100 árum settust fyrstu konurnar í bæjarstjórn Reykjavíkur. Bríet Bjarnhéðinsdóttir var þeirra á meðal og hún, ásamt þremur öðrum konum, bauð fram kvennalista sem náði miklu flugi í kosningabaráttunni.

Fyrir 100 árum settust fyrstu konurnar í bæjarstjórn Reykjavíkur. Bríet Bjarnhéðinsdóttir var þeirra á meðal og hún, ásamt þremur öðrum konum, bauð fram kvennalista sem náði miklu flugi í kosningabaráttunni. Svo mikið var flugið á þeim að hinir listarnir sem voru í framboði tóku til sinna ráða og einn þeirra, listi iðnaðarmanna, bauð konunum að bjóða fram sameiginlega með þeim. Bríet fór á þeirra fund en komst fljótlega að því að eftir litlu var að slægjast því enginn vilji var fyrir því hjá körlunum að eftirláta þeim örugg sæti. Karlarnir skyldu raðast efst og konurnar neðar, en kjörþokki þeirra, dugnaður og lýðhylli skyldi nýtt til hins ítrasta. Bríet sagði nei takk, konurnar buðu fram einar og viti menn (og konur!) – þær unnu kosningasigur og komu flestum fulltrúum að í bæjarstjórn Reykjavíkur.

Fortöpuð sæti kvenna

Lengi hefur það verið lenska að konur fái svokölluð ,,fortöpuð sæti“ á listum til sveitarstjórna og Alþingis. Karlarnir eru í öruggu sætunum en njóta góðs af því að konur prýði sætin fyrir neðan. Stundum er því jafnvel haldið fram að hinn og þessi karlinn fljóti inn á þing eða í sveitarstjórnir á kjörþokka, lýðhylli og vinsældum ýmissa kvenna sem skipa sæti neðar en karlarnir.

Vorið 2006 bauð F-listinn í Reykjavík fram með Ólaf F. Magnússon í efsta sæti, Margréti Sverrisdóttur í öðru og Guðrúnu Ásmundsdóttur í því þriðja. Margir undruðust þá að Margrét myndi ekki leiða listann þar sem hún var einn af stofnendum Frjálslynda flokksins. Var hún jafnvel lengi orðuð við 1. sætið og Ólafur við 2. sætið. Að endingu fór svo að Ólafur flaut örugglega inn í borgarstjórn sem oddviti listans en allir sem fylgdust með kosningabaráttunni vorið 2006 vita að Margrét Sverrisdóttir og ekki síst Guðrún Ásmundsdóttir lögðu gjörva hönd á plóg. Þær voru vinsælar, harðduglegar, höfðuðu til kvenna og eldri borgara og unnu þrotlaust fyrir hönd F-listans. Ólafur fór skömmu eftir kosningar í veikindafrí eins og alþjóð veit og Margrét, Guðrún og fleiri af listanum hafa staðið vaktina fyrir hann á meðan við góðan orðstír.

Það er því grátlegt að Ólafur F. og ekki síst Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavíkurborg hafi ekki svo mikið sem haft samband við þær konur sem skipa annað og þriðja sæti á F-listanum. Enginn tók upp símann og spurði þær álits, þær voru hundsaðar eins og þær skiptu engu máli. Það er ólíklegt að þetta gæti gerst á hinn veginn, það er að kona í leiðtogasæti virti karlana sem á eftir kæmu ekki viðlits. Þetta er takmarkalaus vanvirðing við lýðræðislega kjörna fulltrúa, þetta er móðgandi og særandi fyrir þær sem og allar konur sem vilja að mark sé tekið á þeim í pólitík.

Lítið breyst í 100 ár

Fyrir 100 árum reyndu iðnaðarmenn að koma konunum fyrir í fyrirfram töpuðum sætum, þær áttu að ,,skreyta listana“. Nú 100 árum síðar koma Ólafur F. og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram við Margréti og Guðrúnu eins og þær séu skrautfjaðrir; eins og þær séu ekkert annað en ,,konurnar á bak við manninn“. En þessar konur eiga drjúgan skerf af þeim 6.527 atkvæðum sem fleyttu Ólafi inn í borgarstjórn. Og hafa staðið vaktina fyrir F-listann í borgarstjórn frá upphafi kjörtímabilsins á meðan oddvitinn var í leyfi.

Daginn sem nýr meirihluti tók við mældist stuðningur við hann um 25 prósent. Einungis 16 prósent kvenna studdu hann, af hverju ætli það sé?

Stundum finnst manni einfaldlega eins og lítið hafi breyst í hundrað ár.

Höfundur er laganemi