Guðfinna S. Bjarnadóttir
Guðfinna S. Bjarnadóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðfinna S. Bjarnadóttir, Ellert B. Schram og Steingrímur J. Sigfússon skrifa um Evrópusáttmálann um aðgerðir gegn mansali.: "Hlutverk Evrópuráðsins og Evrópuráðsþingsins er að standa vörð um mannréttindi, lýðræði og réttarríkið..."

Í DAG tekur gildi sáttmáli Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali (Council of Europe Convention on Action against Trafficking in Human Beings). Sáttmálinn nær til mansals í öllum sínum myndum og allra fórnarlamba mansals jafnt kvenna, karla og barna.

Hlutverk Evrópuráðsins og Evrópuráðsþingsins er að standa vörð um mannréttindi, lýðræði og réttarríkið og hafa þessar stofnanir um árabil beitt sér gegn því stórfellda mannréttindabroti sem mansal er.

Mansal – alþjóðlegt og ábatasamt

Mansal endurspeglar eina verstu skuggahlið hnattvæðingar og opinna landamæra. Mansal stendur oftar en ekki í beinu sambandi við bága félagslega stöðu fólks, einkum kvenna frá löndum Mið- og Austur-Evrópu. Það á ekki síst við um fyrrum stríðsátakasvæði. Þar eiga margar konur um sárt að binda og standa höllum fæti vegna atvinnuleysis og fátæktar. Á sama tíma eiga þær í erfiðleikum með að komast til landa þar sem atvinnu er að fá. Þar koma þeir sem stunda mansal inn í myndina. Þeir misnota sér viðkvæma stöðu þeirra og bjóða þeim aðstoð sína við að koma þeim á atvinnusvæði í Vestur-Evrópu en selja þær síðan í hendur aðila sem neyðar þær oft á tíðum til kynlífsþjónustu.

Mansal er skipulögð glæpa- og gróðastarfsemi. Mansal hefur verið mun áhættuminna í samanburði við aðra skipulagða glæpastarfsemi eins og fíkniefnasmygl og vopnasölu eins og fáar ákærur og sakfellingar hafa hingað til borið vitni um. Það má rekja til réttindaleysis fórnarlambanna. Fórnarlömb mansals dvelja vanalega ólöglega í landinu sem þau eru seld til. Þau geta því átt von á að lenda í fangelsi eða vera vísað úr landi í þeim tilvikum sem þau leita til yfirvalda eftir aðstoð.

Markmið sáttmálans

Markmið sáttmálans er að koma í veg fyrir mansal í öllum sínum myndum, bæta réttarstöðu og vitnavernd fórnarlambanna og þar með auðvelda saksókn gegn þeim sem stunda mansal. Meginforsenda þess að mögulegt sé að uppræta mansal sem glæpa- og gróðastarfsemi er samstillt átak stjórnvalda um að samræma löggjöf sína og eiga samvinnu um aðgerðir þar sem mansal felur vanalega í sér sölu á menneskju frá einu landi til annars, frá upprunalandi til viðtökulands. Það er markmið sáttmálans en fullgilding hans kallar á lagabreytingar eða setningu nýrra laga í samræmi við ákvæði sáttmálans.

Sum ákvæði sáttmálans sem viðkoma mansali er þegar að finna í almennum hegningarlögum hérlendis og lögum nr. 5 frá árinu 1985 sem innleiddu samning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum. Það sem einkennir hins vegar sáttmála Evrópuráðsins í samanburði við fyrri lög er að hann gengur skrefi lengra í ákvæðum um verndun fórnarlamba. Sem dæmi má nefna að sáttmálinn verndar fórnarlömb gegn því að samþykki þeirra í orði um eigin misnotkun eða ánauð verði til þess að ekki sé litið á stöðu þeirra sem mannréttindabrot, mansal eða glæp. Samkvæmt sáttmálanum er mansal óháð „samþykki“ fórnarlambsins.

Annað sem einkennir sáttmálann eru þær jákvæðu skyldur sem hann leggur á herðar stjórnvöldum. Sem dæmi er gerð sú krafa til stjórnvalda að draga úr eftirspurn eftir fórnarlömbum mansals en meirihluti fórnarlambanna eru stúlkur og konur sem seldar eru í kynlífsiðnað. Í þessu samhengi eru ríki hvött til að íhuga þann möguleika að gera nýtingu á þjónustu fórnarlamba, eins og t.d. vændiskaup, saknæma.

Sáttmálinn kallar einnig eftir því að ríki íhugi leiðir til að auka möguleika fólks til að komast löglega inn á vinnumarkað Evrópu. Er það í samræmi við tilmæli Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu sem hefur hvatt aðildarríki Evrópuráðsins til að draga úr hömlum á löglegum fólksflutningum milli landa. Samkvæmt spám Evrópusambandsins er talið að eftirspurn á vinnumarkaði verði um 20 milljónir manns næsta áratuginn. Í Evrópu er talið að fjöldi ólöglegra innflytjenda sé um 13,5 milljónir manns. Sá mikli fjöldi réttindalauss fólks á vinnumarkaði er af mörgum talið vera öfugmæli í ljósi hinnar miklu eftirspurnar innan Evrópu og því hvatt til að ríki kanni með hvaða hætti sé hægt að auka möguleika fólks á að fá vinnu með löglegum leiðum. Með þeim hætti er dregið úr möguleikum þeirra sem stunda mansal til að misnota sér veika stöðu og örvæntingu fólks.

Allt er þetta liður í að leiðrétta það réttindaleysi sem hefðbundið hefur einkennt hlutskipti fórnarlamba mansals.

Staða sáttmálans

Eins og fyrr segir er samstillt átak forsenda þess að hægt sé að uppræta mansal. Alls hafa 13 aðildarríki Evrópuráðsins af 47 fullgilt sáttmálann síðan hann var lagður fram hinn 16. maí 2005. Ríkin sem fullgilt hafa sáttmálann eru Albanía, Austurríki, Bosnía og Hersegóvína, Búlgaría, Frakkland, Króatía, Kýpur, Danmörk, Georgía, Moldóva, Noregur, Rúmenía og Slóvakía. Ein 24 aðildarríki Evrópuráðsins til viðbótar eru í hópi þeirra sem hafa á stefnuskrá sinni að fullgilda sáttmálann. Ísland er þeirra hópi en jafnframt hefur Ísland á dagskrá að fullgilda Palermó-bókunina við samning Sameinuðu þjóðanna gegn alþjóðlegri og skipulagðri glæpastarfsemi.

Til að vekja máls á alvöru mansals hefur Evrópuráðið staðið fyrir baráttuherferð gegn mansali síðan árið 2006. Upplýsingar um herferðina og sáttmálann er að finna á vefsvæði Evrópuráðsins og Evrópuráðsþingsins.

Höfundar skipa Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.