Tónskáld Arnar Guðjónsson er líklega þekktastur fyrir að vera aðalsprauta hljómsveitarinnar Leaves sem hefur verið að vinna að plötu í nokkurn tíma.
Tónskáld Arnar Guðjónsson er líklega þekktastur fyrir að vera aðalsprauta hljómsveitarinnar Leaves sem hefur verið að vinna að plötu í nokkurn tíma. — Árvakur/Golli
Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson jbk@mbl.is „ÉG Á eitt lag í myndinni, það kemur alveg í lokin áður en kreditlistinn rúllar.

Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson

jbk@mbl.is

„ÉG Á eitt lag í myndinni, það kemur alveg í lokin áður en kreditlistinn rúllar. Þetta er svaka dramatík,“ segir Arnar Guðjónsson tónlistarmaður úr hljómsveitinni Leaves, en breski leikstjórinn Sean Ellis valdi lag eftir Arnar í nýjustu mynd sína, hryllingsmyndina The Broken sem sýnd er á Sundance-kvikmyndahátíðinni um þessar mundir. Þar hefur myndin vakið töluverða athygli og fengið góða dóma.

Umrætt lag er tekið af plötunni Leðurstræti sem kom út fyrir átta árum. „Þetta er tónlist sem ég gerði með bróður mínum, Sigurði Guðjónssyni myndlistarmanni. Þetta var tónlist sem við gerðum fyrir myndbandsverk árið 2000,“ segir Arnar. „Leikstjórinn Sean Ellis fékk svo þennan disk og varð mjög hrifinn af honum. Hann setti sig strax í samband við mig og síðan þá hefur þetta legið í loftinu. Það var svo ekki fyrr en núna sem hann kom þessu að.“

Í anda Lynch og Hitchcock

Aðspurður segir Arnar að hann hafi endurunnið lagið örlítið áður en það var notað í myndinni. „Þetta er eins konar blanda af raftónlist og kvikmyndatónlist, ég vann þetta með bróður mínum sem er mikið að vinna með ambient-hljóð,“ segir hann og bætir því við að um gott tækifæri sé að ræða. „Það er frábært að komast einhvers staðar inn og ég gæti alveg hugsað mér að gera meira af þessu. Það er líka aldrei að vita nema einhver taki eftir þessu lokalagi.“

Sjálfur er Arnar ekki búinn að sjá myndina, enda hefur hún einungis verið sýnd opinberlega á Sundance. „Ég er bara búinn að sjá þetta lokaatriði þannig að ég veit ekkert hvað gerist í myndinni. En mér skilst að hún sé í anda bæði David Lynch og Alfreds Hitchcock,“ segir Arnar sem stefnir þó að því að sjá myndina sem fyrst. „Það er spurning hvort maður komist á frumsýninguna í Bretlandi, það væri gaman.“

Ekki er hægt að sleppa Arnari án þess að spyrja hann út í næstu plötu Leaves sem hefur verið nokkuð lengi í bígerð. „Hún er alveg að verða tilbúin, við förum að láta í okkur heyra. Við erum mjög sáttir við það sem við erum að gera núna, en höfum ekki verið það hingað til. Við viljum koma lagi í gang fyrir sumarið, svo ætlum við að koma plötunni út hér heima sem fyrst.“