Bjórinn víkur Vínneysla í Bandaríkjunum tók mikinn kipp fyrir tveimur áratugum er sjónvarpsþátturinn 60 Minutes sagði frá því að skýringa á heilbrigði Frakka mætti leita í rauðvínsdrykkju þeirra.
Bjórinn víkur Vínneysla í Bandaríkjunum tók mikinn kipp fyrir tveimur áratugum er sjónvarpsþátturinn 60 Minutes sagði frá því að skýringa á heilbrigði Frakka mætti leita í rauðvínsdrykkju þeirra. — Reuters
Eftir Steingrím Sigurgeirsson sts@mbl.is Það hefðu líklega fáir trúað því fyrir nokkrum árum að Bandaríkjamenn myndu nokkurn tímann ná þeirri stöðu að verða mesta vínneysluþjóð veraldar.

Eftir Steingrím Sigurgeirsson

sts@mbl.is

Það hefðu líklega fáir trúað því fyrir nokkrum árum að Bandaríkjamenn myndu nokkurn tímann ná þeirri stöðu að verða mesta vínneysluþjóð veraldar. Það virðist hins vegar vera að gerast og á síðasta ári sigldu Bandaríkin fram úr Ítalíu. Alls neyttu – eða að minnsta kosti keyptu – Bandaríkjamenn 304 milljónir kassa af víni á árinu 2007 og var það fimmtánda árið í röð sem vínneysla í landinu jókst.

Ef fram fer sem horfir munu Bandaríkin ná Frakklandi á næstu tveimur árum og verða þar með orðin það ríki veraldar þar sem vínneysla er mest. Auðvitað er ekki allt sem sýnist í þessu enda er hér um að ræða heildarneyslutölur en ekki neyslu á mann. Þar sem Bandaríkjamenn eru mun fjölmennari en Ítalir og Frakkar má segja að þeir eigi ansi langt í land með að ná þessum Evrópuþjóðum.

Nýjar neysluvenjur

Engu að síður er þetta til marks um miklar breytingar á bandarískum neysluvenjum en fyrir fjórum áratugum var heildarvínneysla Bandaríkjamanna um 60 milljónir kassa. Í nýlegri Nielsen-könnun á neysluvenjum hinnar svokölluðu árþúsundamóta-kynslóðar, en til hennar teljast Bandaríkjamenn á aldrinum 21-30 ára, kom í ljós að vín að sækir mjög á á kostnað bjórs. Þessi kynslóð er um 70 milljónir Bandaríkjamanna og hefur því mikil áhrif á heildarneyslu þjóðarinnar. Vakti athygli í könnuninni hversu ólíkar neysluvenjur árþúsundamóta-kynslóðarinnar voru frá neysluvenjum hinnar svokölluðu X-kynslóðar, að ekki sé minnst á neysluvenjur eldri Bandaríkjamanna.

Þessi kynslóð velur líka rautt vín fram yfir hvítt og þá helst Cabernet Sauvignon eða Pinot Noir.

Vínneysla í Bandaríkjunum tók mikinn kipp fyrir tæpum tveimur áratugum er sjónvarpsþátturinn 60 mínútur gerði úttekt á hinni svokölluðu „frönsku þversögn“, rannsókn sem leiddi í ljós að þrátt fyrir að fita gegndi álíka miklu hlutverki í matarneyslu Bandaríkjamanna og Frakka væru Frakkar mun heilbrigðari. Skýringin var rakin til þess að Frakkar neyttu rauðvíns með matnum en Bandaríkjamenn ekki.