Gott framtak Fyrirtæki þurfa að gera átak í að jafna kynjahlutföll.
Gott framtak Fyrirtæki þurfa að gera átak í að jafna kynjahlutföll. — Árvakur/Golli
Eftir Halldóru Þórsdóttur halldorath@mbl.is ÁSTANDIÐ breytist ekki sjálfkrafa heldur þarf þrýsting utan frá. Þolinmæðin gagnvart hlutskipti kvenna í fyrirtækjum er á þrotum,“ sagði Björgvin G.

Eftir Halldóru Þórsdóttur

halldorath@mbl.is

ÁSTANDIÐ breytist ekki sjálfkrafa heldur þarf þrýsting utan frá. Þolinmæðin gagnvart hlutskipti kvenna í fyrirtækjum er á þrotum,“ sagði Björgvin G. Sigurðsson,viðskiptaráðherra á fundi sem Félag kvenna í atvinnurekstri (FKA) og LeiðtogaAuður boðuðu til í gær.

Björgvin sagði lagalegar aðgerðir til að rétta hlutfall kynja í stjórnum fyrirtækja ekki útilokaðar ef ekkert breyttist næstu tvö árin. Lögbundin krafa um minnst 40% af hvoru kyni væri möguleiki, eins og gert hefði verið í Noregi. Þó mætti byrja á mildari aðgerðum, eins og að lögfesta upplýsingaskyldu um nöfn, stöðuheiti og ábyrgðarsvið stjórnarmeðlima og æðstu stjórnenda fyrirtækja.

„Æskilegast er auðvitað að fyrirtækin sýni frumkvæði og jafni hlutföllin sjálf, en afskipti löggjafans á alls ekki að útiloka ef annað virkar ekki.“

Óbreytt ástand ekki liðið

Ráðherra sagði að áður en gripið yrði til róttækra aðgerða myndi ráðuneytið beita sér fyrir þrýstingi á málin með virkari umræðu. Þannig mætti t.d. verðlauna fyrirtæki sem stæðu sig vel með því að draga þau fram í sviðsljósið og auglýsa árangur þeirra. Forsvarsmenn fyrirtækja þyrftu að gera sér grein fyrir því að óbreytt ástand yrði ekki liðið, gagnger breyting á næstu tveimur árum væri það eina sem væri viðunandi.

Fjölmennt var á fundinum en þar var þó aðeins einn karlmaður utan ráðherra. Fram kom ýmis fróðleikur um stöðu kvenna í fyrirtækjum í dag, sem og fjölbreyttar skoðanir um hvað skyldi taka til bragðs.

„Við höfum nú þegar öðlast aldur og reynslu og eigum ekki að þurfa að bíða lengur eftir því að kynjahlutföllin jafnist af sjálfu sér,“ sagði Tanya Zharov, fundarstjóri og framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Auðar Capital. Hún benti á tækifærin sem fælust í krafti kvenna. Meirihluti þeirra sem útskrifast úr háskóla er konur og nýleg könnun CreditInfo leiddi í ljós minni vanskil hjá félögum með konur í stjórn, svo ekki sé minnst á þau jákvæðu áhrif sem fjölbreytni hefði á ímynd fyrirtækja. Þess utan er augljóst og margsýnt óhagræði í því að útiloka helming mannauðsins, konur.

Lífeyrissjóðirnir mikilvægir

Tanya beindi sjónum fundargesta sérstaklega að ójöfnu kynjahlutfalli í stjórnum lífeyrissjóða þótt það hefði batnað á síðustu árum. Mikilvægi sjóðanna endurspeglast m.a. í því að þeir fara með mikið fé almennings. Áhugi sjóðanna á málefninu væri nauðsynlegur í ljósi vægis þeirra í viðskiptalífinu. Þá væru ráðuneytin og ýmsar nefndir á vegum ríkisins ekki til fyrirmyndar.

„Það skiptir máli að ríkið gangi á undan með góðu fordæmi og lagi sitt nefndahlutfall, helst með einu pennastriki,“ sagði Ásdís Richardsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska dansflokksins. Einnig var kallað eftir aðgerðaáætlun af hálfu stjórnvalda sem ráðherra svaraði að væri rétt handan við hornið. Hins vegar voru ekki allir á eitt sáttir um réttlætingu kynjakvóta, eða annarra „þvingana“.

Í hnotskurn
» Á rétt rúmum sólarhring kváðust yfir 100 konur tilbúnar til að setjast í stjórn fyrirtækja. Listinn birtist í gær.
» Skortur á hæfum konum er því ekki vandamálið.
» Konur eru 8% stjórnarmanna 100 stærstu fyrirtækja landsins. Aðeins þrjú þeirra hafa kvenkyns stjórnarformann.
» 42% stjórnarmanna í norskum hlutafélögum eru konur.

Leiðrétting 2. febrúar - Rangt nafn

RANGT var farið með nafn Ásu Richardsdóttur, framkvæmdastjóra Íslenska dansflokksins, í Morgunblaðinu í gær. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.