Ofþjálfun Allt er best í hófi.
Ofþjálfun Allt er best í hófi. — Árvakur/Þorkell
„ALLT er best í hófi“ er gamalt máltæki og það virðist ekki síður eiga við um líkamsrækt en annað.

„ALLT er best í hófi“ er gamalt máltæki og það virðist ekki síður eiga við um líkamsrækt en annað. Í Danmörku eru ýmsir læknar og sérfræðingar farnir að vara við því, sem þeir kalla ofþjálfun, nokkurs konar líkamsræktarnauðung eða -fíkn, sem geti síðar leitt til slitgigtar og annarra kvilla.

Morten Zacho, lektor við Syddansk Universitet og áhugamaður um holla hreyfingu, segir, að margir misskilji áróðurinn fyrir líkamsrækt og hollri hreyfingu. Líkamsræktin verði því að eins konar nauðung, sem geti að lokum leitt til minni lífsgæða en ekki meiri.

Zacho, sem heldur úti vefsíðunni motion-online.dk, segir, að ekki sé óalgengt, að fólk stundi líkamsræktina í 15 til 20 klukkustundir á viku. Augljóst sé, að hjá sumum sé ræktin orðin að fíkn, sem þeir eða þær ráði ekki við.

„Líkaminn þolir mikið álag en þegar fram líða stundir geldur hann fyrir það á ýmsan hátt, til dæmis með slitgigt,“ segir Morten Zacho.

Engar tölur eru til um fjölda þeirra, sem hafa komið sér upp líkamsræktarfíkn, en Birgit Petersson, sálfræðingur og lektor við Medicinisk Kvinde- og Kønsforskning við Kaupmannahafnarháskóla, segist hafa forvitnast um það mál á nokkrum líkamsræktarstöðum með raunverulega rannsókn í huga. Er það bráðabirgðaniðurstaða hennar, að 20% kvenna og karla í líkamsrækt séu haldin fíkn. Þá segir hún, að um 20% þeirra kvenna, sem stundi líkamsræktina, séu með átraskanir af einhverju tagi.