Svanberg Ingi Ragnarsson fæddist á Akureyri 19. apríl 1933. Hann andaðist á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja að kvöldi þriðjudagsins 22. janúar síðastliðins. Foreldrar hans voru Ólafía Ásbjörnsdóttir og Ragnar Ágústsson. Svanberg Ingi var yngstur þriggja systkina. Hin eru Hörður, f. 14. ágúst 1928, d. 4. desember 2001 og Þóra T., f. 24. febrúar 1931.

Svanberg Ingi kvæntist 24. október 1964 Karen Sigurðardóttur, f. 2. janúar 1933. Foreldrar hennar voru Sigríður Árnadóttir og Sigurður Þorsteinsson. Stjúpsonur Svanberga Inga er Guðmundur Kr. Þórðarson, f. 26. júní 1958.

Svanberg Ingi fluttist á öðru ári ásamt foreldrum sínum og systkinum til Þingeyrar við Dýrafjörð þar sem hann ólst upp. Hann stundaði ýmsa vinnu, m.a. vega- og brúarsmíði. Hann fluttist til Keflavíkur 1954, þar sem hann vann við m.a. múrverk, pípulagnir og sjómennsku þar til hann réð sig til Byggingaverktaka Keflavíkur í ágúst 1965 og starfaði þar til hann lét af störfum vegna aldurs í apríl 2000.

Útför Svanbergs Inga verður gerð frá Keflavíkurkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur huga þinn, og þú munt sjá, að þú grætur vegna þess, sem var gleði þín.

(Kahlil Gibran, þýð. Gunnar Dal.)

Þín

eiginkona.

Elsku Ingi,

mig langar að kveðja þig með nokkrum línum.

Þegar þið mamma kynntust var ég 4 ára gutti sem eflaust var stundum erfiður. En næstu 45 árin sem leiðir okkar lágu saman gat ég ávallt treyst á þína umhyggju. Þú varst ávallt tilbúinn að leiðbeina og hjálpa þegar þörf var á, enda lék allt í höndum þínum. Seinna þegar þú lentir í þínum erfiðu veikindum kom einnig í ljós hve duglegur og ákveðinn þú varst. Innan árs varst þú farinn að vinna aftur eins og heilsan leyfði og alla tíð eftir það vildir þú bjarga þér og gera sem mest sem þú gast sjálfur og sýndir hve miklu má áorka með dugnaði og seiglu. Ávallt vildir þú hafa þinn hátt á, enda kom oftast í ljós að sá háttur var á endanum sá besti. Þegar þú greindist svo með krabbamein nú í haust vaknaði sú von að þér tækist með þínum dugnaði og seiglu að halda aftur af þessum vágesti en því miður hafði hann betur á allt of stuttum tíma. Mun ég ávallt minnast þín með söknuði og megir þú hvíla í friði.

Guðmundur.

Það er erfitt að finna réttu orðin þegar kveðja á jafnmætan mann og hann Inga frænda eða Inga Dadda eins og hann var kallaður af börnunum í gegnum kynslóðirnar. Gleði hlýja og kærleikur koma fyrst upp í hugann því hvar sem Ingi var þá streymdi gleðin og hlýjan frá honum. Ingi var mikill barnakall og hændust börn sérstaklega að honum enda hafði hann gaman af að bregða á leik og stutt var í glensið og stríðnina hjá honum, hvort sem börnin voru stór eða smá.

Hér eftir verður stórt skarð í afmælum og fjölskyldusamkomum án Inga. En við eigum allar fallegu og skemmtilegu minningarnar sem munu lifa í hjörtum okkar ástvina hans og þær verða ekki frá okkur teknar. Ingi og Gógó voru börnum okkar sem afi og amma og kallaði Svanberg Ingi sonur okkar og alnafni frænda síns hann alla sína tíð Dadda afa og var ávallt mjög kært á milli þeirra.

Við vitum um einn engil, hann Svanberg Inga okkar, sem hefur tekið á móti honum opnum örmum með bros á vör og sagt: hæ Daddi afi, ertu kominn til okkar Sigga afa.

Elsku Gógó, Guðmundur og Þóra, ykkar missir er mestur, en minningin um góðan og ekki síst einstakan dreng mun lifa.

Guð gefi ykkur styrk á þessum erfiðu tímum.

Deyr fé,

deyja frændr,

deyr sjálfr et sama;

en orðstírr

deyr aldregi,

hveims sér góðan of getr.

(Hávamál.) Sigrún, Ragnar

og fjölskylda.