Ábyrgir Ritstjóri Teknikens Värld hrósar Toyota sérstaklega fyrir hvernig brugðist var við niðurstöðum Elgsprófsins en þar þótti Hilux bifreið á 16" felgum heldur völt á fótum.
Ábyrgir Ritstjóri Teknikens Värld hrósar Toyota sérstaklega fyrir hvernig brugðist var við niðurstöðum Elgsprófsins en þar þótti Hilux bifreið á 16" felgum heldur völt á fótum. — Morgunblaðið/Árni Torfason
Greint var frá því fyrir nokkru þegar Toyota Hilux-bifreið á 16" felgum féll á svonefndu Elgsprófi í Svíþjóð en þar lá við að bíllinn ylti í krappri hlykkbeygju. Komst tímaritið Teknikens Värld að þeirri niðurstöðu að bíllinn væri hættulegur.

Greint var frá því fyrir nokkru þegar Toyota Hilux-bifreið á 16" felgum féll á svonefndu Elgsprófi í Svíþjóð en þar lá við að bíllinn ylti í krappri hlykkbeygju. Komst tímaritið Teknikens Värld að þeirri niðurstöðu að bíllinn væri hættulegur. Í samvinnu við tímaritið voru prófanirnar endurteknar kerfisbundið og í framhaldinu var ákveðið að stöðva sölu á Toyota Hilux á 16" felgum í Evrópu. Athygli vekur að í öðru tölublaði tímaritsins á þessu ári hrósar ritstjórinn Daniel Frodin yfirmönnum Toyota sérstaklega fyrir hvernig brugðist var við niðurstöðum prófsins. Hann greinir frá því að fyrirtækið hafi lagt mikla vinnu í að komast að rót vandans og vinna að auknu öryggi. Toyota hefur jafnframt boðið þeim 8.200 manns í Evrópu sem eiga nýjan Hilux á 16" dekkjum og felgum ókeypis breytingar yfir á 15".

Þess má geta að Toyota Motor Europe hefur einnig prófað Hilux-bifreiðina með 15" felgum samkvæmt aðferðafræði Elgsprófsins og hefur ekki tekist að láta bifreiðina haga sér eins og hún gerði í umræddu prófi Teknikans Värld . Þá má benda á að megnið af þeim Hilux-bifreiðum sem fyrirtækið afhendir á Íslandi eru búnar 15" felgum.

Einu Hilux-bifreiðarnar sem afhentar eru á 16" felgum eru þær sem útbúnar eru með 33 breytingarpakka að ósk viðskiptavinarins. Þær felgur eru hins vegar 1 cm breiðari og standa 4 cm utar undir bílnum hvorum megin en felgurnar sem undir bílnum í Elgs-prófinu voru. Þá eru að sama skapi önnur mun víðari dekk undir slíkum breyttum bílum (ekki „low profile“) en þau dekk sem voru undir Hiluxinum í Elgsprófinu umrædda.