Bjargvættur HB & Co hóf frystingu á karfa til útflutnings 1950, fyrst íslenskra fyrirtækja, og í tvö ár sat fyrirtækið eitt að þessari vinnslu hér á landi.
Bjargvættur HB & Co hóf frystingu á karfa til útflutnings 1950, fyrst íslenskra fyrirtækja, og í tvö ár sat fyrirtækið eitt að þessari vinnslu hér á landi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Miðað við þær aðgerðir, sem HB Grandi er að grípa til, er fiskvinnsla nánast aflögð á Akranesi,“ segir Gísli S. Einarsson, bæjarstjóri á Akranesi.

Eftir Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Miðað við þær aðgerðir, sem HB Grandi er að grípa til, er fiskvinnsla nánast aflögð á Akranesi,“ segir Gísli S. Einarsson, bæjarstjóri á Akranesi. „Við munum nú tímana tvenna og þrenna þegar hér voru fjögur frystihús, sem unnu fisk, og mjög öflug vertíðarbátaútgerð.“

Gísli S. Einarsson bendir á að á blómatímanum eftir 1950 hafi milli 30 og 40 vertíðarbátar stundað útgerð á Akranesi, en eftir að kvótakerfinu hafi verið komið á hafi aflaheimildir verið fluttar á færri skip og síðan hafi allt gengið á afturfótunum. Reynt hafi verið að hagræða og sameina og niðurstaðan væri nú öllum ljós. Nú væri búið að hagræða þeim aflaheimildum, sem Haraldur Böðvarsson hf. hafi haft yfirráð yfir, í HB Granda í Reykjavík. „Það sem eftir stendur er ekki neitt hér. Ekkert stendur eftir.“

Einn helsti útgerðarbærinn

Akranes hefur verið fiskveiðibær frá landnámi og alltaf verið með mestu útgerðarbæjum landsins. Síðan Brynjólfur Skálholtsbiskup Sveinsson hóf útgerð frá Steinsvör á Akranesi um miðja 17. öld til styrktar Skálholtsskóla hefur útgerð verið ein helsta stoð atvinnulífsins á Skaganum.

Haraldur Böðvarsson, kaupmaður og útgerðarmaður, hóf eigin útgerð 17. nóvember 1906, þegar hann keypti sexæringinn Helgu Maríu. Hann gerði hana út frá vörum í Garði. Síðan gerði hann út frá Vogum frá 1909 eins og Loftur Loftsson og Þórður Ásmundsson, en 1914 færðu þeir sig til Sandgerðis. Haraldur stofnaði útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið HB & Co með fimm Norðmönnum í Bergen 1915 og seldi allar eignirnar í Sandgerði inn í það félag. Um 1920 voru um 700 manns víðs vegar að af landinu á vegum HB & Co, Lofts og Þórðar í útgerð og fiskverkun í Sandgerði, þar á meðal karlmenn frá Akranesi, en í vertíðarlok á vorin breiddu Skagakonur fisk út til þurrkunar á Akranesi.

Haraldur keypti öll hlutabréfin í HB & Co af norskum banka 1924. Um 1926 fundust svokölluð Akurnesingamið. Upp úr því hættu Skagamenn að gera út frá Suðurnesjum og hófu mikla útgerð frá Akranesi. Haraldur Böðvarsson seldi Sandgerðingum 50% í félagi sínu í Sandgerði 1933 og afganginn 1941 og þá var Miðnes stofnað. Það sameinaðist HB síðan aftur 56 árum seinna eða 1997.

Á markað 1991

HB & Co var gert að hlutafélagi 1969. 1991 var öll fiskvinnsla og útgerð á Akranesi sameinuð undir hatti Haraldar Böðvarssonar. Það voru Síldar- og fiskimjölsverksmiðja Akraness, eitt af fyrstu almenningshlutafélögum landsins sem stofnað var 1937 að frumkvæði bæjarins, Heimaskagi hf. og Sigurður hf. Þá fór félagið á almennan hlutabréfamarkað og hætti í raun og veru að vera fjölskyldufyrirtæki. 1996 rann Krossvík hf., sem var í eigu Svans Guðmundssonar frá Grundarfirði, inn í HB og Miðnes ári síðar. 2001 voru Burðarás og Eimskip langstærstu hluthafarnir með um 50% hlut í félaginu. 2002 áttu forráðamenn Eimskips og Granda viðræður um að sameina HB og Granda en ekki náðist samkomulag um það og varð það til þess að HB fór inn í sjávarútvegsstoð Eimskips, Brim, þar sem Skagstrendingur og ÚA voru fyrir. 2003 kom Landsbankinn inn í Eimskip og 2004 keypti Grandi HB út úr Eimskip. Á Akranesi var ályktað að það væri besti kosturinn í stöðunni, því þá héldust aflaheimildirnar við Faxaflóann. Á þessum tíma var HB með tvo frystitogara, tvö loðnuskip og tvo ísfisktogara.

Kvótahæsta félagið

Miklar framfarir og tækninýjungar hafa átt sér stað í fiskvinnslu og útgerð og hafa Skagamenn ætíð verið fljótir að tileinka sér þær.

HB & Co hóf frystingu á karfa til útflutnings 1950, fyrst íslenskra fyrirtækja, og í tvö ár sat fyrirtækið eitt að þessari vinnslu hér á landi, en sagt var að karfinn hefði verið bjargvættur íslensku togaraútgerðarinnar.

Í janúar 1953 byrjuðu 15 smiðir og 25 handlangarar að setja upp trönur við Jaðarsbakka, þar sem nú eru fótboltavellir. Mikið fiskirí var þennan vetur og stanslaus löndun og var fiskurinn að mestu hengdur á trönurnar, sem fylltust jafnóðum. Alls voru sett upp um 4.500 tonn af blautfiski sem gerðu sig sem 765 tonn af þurri skreið fyrir Ítalíu- og Nígeríumarkað. Þetta er svipað magn og þorskkvóti HB Granda er nú.

Upp úr 1970 leystu skuttogarar vertíðarbátana af hólmi en fyrsti skuttogarinn kom til Akraness 1972. Segja má að vertíðartímanum hafi að mestu verið lokið um 1974.

Akranes var stærsta síldarverstöð landsins um 1964. Síldar- og fiskimjölsverksmiðjan á Akranesi var endurnýjuð og endurbyggð 1997 og er ein fullkomnasta bræðsla landsins en kostnaðurinn við framkvæmdirnar var um 1,5 milljarðar króna. Frysting loðnuhrogna hefur skilað fyrirtækinu miklu og var metár í því efni hjá HB Granda í fyrra.

Kvótaárið 2001-2002 var Haraldur Böðvarsson hf. 5. kvótahæsta útgerðarfélag landsins með 14.294 þorskígildistonn (4,35%), Grandi var í 6. sæti með 3,78% kvótans og ÚA kvótahæst með 5,69%. Staðan var svipuð næstu tvö fiskveiðiár en í upphafi fiskveiðiársins 2004-2005 var HB Grandi hf. kvótahæsta útgerðarfélagið með 27.969 þorskígildistonn eða 8,08% kvótans. Síðan hefur HB Grandi verið kvótahæsta félagið með 31.567 þorskígildistonn 2005-2006, 35.698 tonn 2006-2007 og 30.305 tonn í upphafi yfirstandi tímabils. Þess má geta að HB hefur í gegnum árin verið launahæsti greiðandi Vesturlands og til dæmis greiddi félagið um 719 milljónir í laun 1993. Næst kom Íslenska járnblendifélagið með 350 milljónir.

Fjórir bátar eftir

Á hádegi í gær voru íbúar Akraness 6.380. Fyrir um áratug starfaði um 21% íbúa við útgerð og fiskvinnslu en með nýjustu aðgerðum hefur sú tala lækkað mjög mikið og einskorðast að mestu við áhafnir á skipum HB Granda.

Gísli S. Einarsson segir að HB Grandi sé að velta fyrir sér að vinna um 1.500 tonn á Akranesi en það sé aðeins í orði en ekki hendi. Hann rifjar upp að þegar fiskvinnsla og útgerð hafi staðið sem hæst á Akranesi frá um 1950 til um 1975 hafi þar verið fjögur frystihús. Sigurður Hallbjarnarson hafi verið með um tvo til þrjá báta í útgerð, Fiskiver um fjóra til fimm báta, Heimaskagi um fimm til sex báta og HB og Co um 20 báta. Nær allar aflaheimildir hafi síðan verið sameinaðar í fyrirtækið Harald Böðvarsson. Nú stundi fjórir smábátar með einum til fjórum mönnum um borð útgerð allt árið með samtals um 450 tonna kvóta. „Það eru nú öll ósköpin,“ segir hann.