Aðgengi Ásdís Jenna Ástráðsdóttir, sem er heyrnarskert og fjölfötluð, reynir að komast leiðar sinnar í húsakynnum Háskóla Íslands.
Aðgengi Ásdís Jenna Ástráðsdóttir, sem er heyrnarskert og fjölfötluð, reynir að komast leiðar sinnar í húsakynnum Háskóla Íslands. — Árvakur/Frikki
VAKA, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, hefur unnið úttekt á aðgengi fatlaðra í fimm helstu byggingum Háskóla Íslands, þ.e. Odda, Árnagarði, Lögbergi, Öskju og Háskólatorgi.

VAKA, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, hefur unnið úttekt á aðgengi fatlaðra í fimm helstu byggingum Háskóla Íslands, þ.e. Odda, Árnagarði, Lögbergi, Öskju og Háskólatorgi. Úttektin var gerð í samstarfi við ungliðahreyfingar Blindrafélagsins (Ungblind) og Sjálfsbjargar (Ný-ung).

Í samtali við Morgunblaðið segir Fjóla Einarsdóttir, fulltrúi í alþjóða- og jafnréttisnefnd Vöku, úttektina hafa leitt í ljós að blindur nemandi geti hæglega stundað nám við Háskólann þar sem flestöll kennileiti séu góð og blindramerkingar á flestum kennslustofum. Úttektin hafi hins vegar leitt í ljós að þótt hjólastólaaðgengi hafi reynst ágætt séu ýmis smáatriði sem þurfi að laga, þannig vanti víða t.d. rampa upp tröppur, sums staðar vanti hurðaopnara auk þess sem aðstæður á Háskólatorgi séu víða þröngar.

Að sögn Fjólu verður unnin skýrsla úr rannsóknargögnum úttektarinnar, sem afhent verður rektor Háskóla Íslands nk. mánudag. Skýrslunni munu einnig fylgja tillögur að úrbótum. Aðspurð telur Fjóla útfærslu tillagnanna ekki fela í sér mikinn kostnað fyrir skólann, enda sé yfirleitt aðeins um smáúrbætur að ræða. „Þetta eru smáatriði fyrir okkur, en þau breyta öllu fyrir þessa nemendur,“ segir Fjóla.