[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BAKKAVÖR Group styrkti stöðu sína á síðasta ári með kaupum á fimm fyrirtækjum en engu að síður var árið fyrirtækinu erfitt, enda er haft eftir Ágústi Guðmundssyni, forstjóra Bakkavarar, að fyrirtækið hafi á síðasta ári staðið frammi fyrir erfiðustu...

BAKKAVÖR Group styrkti stöðu sína á síðasta ári með kaupum á fimm fyrirtækjum en engu að síður var árið fyrirtækinu erfitt, enda er haft eftir Ágústi Guðmundssyni, forstjóra Bakkavarar, að fyrirtækið hafi á síðasta ári staðið frammi fyrir erfiðustu rekstrarskilyrðum í áratugi.

Bakkavör fékk að kynnast ýmsu mótlæti, eins og innköllun á vörum í upphafi ársins, miklum hækkunum á hráefnisverði og slæmu veðurfari í Bretlandi, auk þess sem gripið var til hagræðingar í framleiðslu á tilbúnum réttum.

Gerir Ágúst áfram ráð fyrir krefjandi aðstæðum á þessu ári en segir að stoðirnar séu sterkar.

Erfiður fjórði ársfjórðungur

Hagnaður Bakkavarar á síðasta ári nam 47,4 milljónum punda, jafnvirði um sex milljarða króna, borið saman við 68,2 milljóna punda hagnað árið 2006, jafnvirði nærri 9 milljarða króna á núvirði.

Fjórði ársfjórðungur var fyrirtækinu erfiðari en árið áður, eins og fleirum á markaði, en þá var hagnaður 10,4 milljónir punda, samanborið við 32,7 milljónir punda á fjórða ársfjórðungi 2006.

Kaupa í Bandaríkjunum og Kína

BAKKAVÖR heldur áfram að stækka við sig. Tilkynnt var í gær um kaup á tveimur fyrirtækjum í matvælaiðnaði, annað er í Kína og hitt í Bandaríkjunum. Í hvorugu tilvikinu er upplýst um kaupverð en í Morgunkorni Glitnis segir að kaupin hafi óveruleg áhrif á rekstur Bakkavarar. Um er að ræða Yantai Longshun Foods í Lai Yang City, sem sérhæfir sig í framleiðslu á grænmeti og ávöxtum, og Two Chefs on a Roll í Kaliforníu, sem framleiðir fersk og frosin matvæli einkum kökur og eftirrétti. Fyrir á Bakkavör Creative Foods í Kína en þetta er fyrsta fjárfestingin í Bandaríkjunum. Stofnað hefur verið „Bakkavör USA“ og forstjóri ráðinn til starfa, John Dutton.

bjb@mbl.is

Höf.: bjb@mbl.is