Á Bessastöðum Þorsteinn Þorsteinsson horfir á Sigurð Pálsson taka við Íslensku bókmenntaverðlaununum úr höndum Ólafs Ragnars Grímssonar.
Á Bessastöðum Þorsteinn Þorsteinsson horfir á Sigurð Pálsson taka við Íslensku bókmenntaverðlaununum úr höndum Ólafs Ragnars Grímssonar. — Árvakur/Árni Sæberg
Eftir Bergþóru Jónsdóttur og Ingveldi Geirsdóttur FORSETI Íslands afhenti Íslensku bókmenntaverðlaunin í gær við athöfn á Bessastöðum.

Eftir Bergþóru Jónsdóttur

og Ingveldi Geirsdóttur

FORSETI Íslands afhenti Íslensku bókmenntaverðlaunin í gær við athöfn á Bessastöðum. Sigurður Pálsson fékk verðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir Minnisbók , endurminningabók skáldsins frá árum hans í Frakklandi. Í flokki fræðibóka hlaut Þorsteinn Þorsteinsson verðlaunin fyrir bókina Ljóðhús. Þættir um skáldskap Sigfúsar Daðasonar.

„Mér þykir vænt um það ef einhverjum finnst fengur að bókinni. Það gleður mig vissulega,“ segir Þorsteinn. Bókin um skáldskap Sigfúsar var í smíðum frá árinu 2001 en þótt hún kæmi ekki út fyrr en síðasta vor hafði Þorsteinn lokið henni að mestu nokkru fyrr. „Sigfús dó '96. Skömmu áður bað hann mig að sjá um útgáfu á ljóðum sem hann hafði verið að yrkja síðasta áratuginn og hafði ekki krafta til að ganga frá sjálfur. Sú bók heitir: Og hugleiða steina og kom út ári eftir andlát hans, 1997. Svo fór ég að huga að ritgerðum Sigfúsar og gaf út ritgerðasafn hans árið 2000. Ég hef lesið Sigfús frá því ég kynntist fyrstu bók hans 1954 og hef verið dyggur lesandi hans alla tíð. Mig langaði til að kanna ljóð hans betur og þegar ég fór að skoða plögg hans rakst ég á ýmislegt sem ég hafði ekki séð áður. Það varð svo úr að ég fór smám saman að skrifa um verkin hans. Þetta er hálfgildings ritgerðasafn því ég tek fyrir bók og bók og ljóðaflokka. Þannig æxlaðist það að þessi bók mín varð til,“ segir Þorsteinn Þorsteinson.

Minnið er skáld

„Ég er nú ekki mjög flókin persóna og í huga mér er einfaldlega þakklæti fyrir þessa viðurkenningu,“ segir Sigurður Pálsson. „Ég lít á hana sem hvatningu og hvatning er merkilega nauðsynleg í þessu skringilega og einmanalega starfi. Það er þó ekki síðri hvatningin sem ég hef fengið frá fólki sem hefur lesið þessa bók. Hún virðist snerta fólk. Það er eitthvað sem maður sér aldrei fyrir. Maður rennur alltaf blint í sjóinn með viðbrögð.“ Sigurður viðurkennir aðspurður að margir hafi verið farnir að bíða eftir bók frá honum um Frakklandsárin. „Bókin var í deiglunni í þónokkurn tíma því þótt ég ætlaði aldrei að skrifa ævisögu var eftirspurn orðin greinileg eftir einhverju tengdu endurminningum. Innra með mér var líka sívaxandi löngun til að miðla ákveðnum hlutum og leyfa minninu, sem er skáld – þess vegna heitir bókin Minnisbók – að finna ungan mann og sjá hvernig þetta gerðist, að hann endaði sem skáld.“

Synir vinkvenna

Ólafur Ragnar Grímsson forseti sagði í ræðu sinni á Bessastöðum í gær að Íslensku bókmenntaverðlaunin væru skemmtilegur hvati fyrir umræðu um bækurnar í landinu, fjölbreytileika útgáfunnar og þau knýðu okkur öll með ákveðnum hætti til að vega og meta það sem vel væri gert og kannski umfram allt til að taka afstöðu til bókanna sem út kæmu. Hann nefndi einnig að gaman væri að því í áranna rás hvernig verðlaunin fléttuðust oft saman í skemmtilegar tilviljanir og var þá að vísa í Frakklandstengingu Sigurðar og Sigfúsar. Sigurður upplýsti síðar í ræðu sinni að tengingin væri meiri því að lífsþræðir hans og Þorsteins lægju saman á ákveðinn hátt, þeir væru báðir Norður-Þingeyingar og mæður þeirra hefðu verið miklar vinkonur alla tíð.

Tvær milljónir bóka á ári

Í ávarpi sínu við athöfnina í gær sagði Kristján B. Jónasson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, að íslensk bókaútgáfa hefði á síðustu 60 árum þróast frá því að afkasta fáeinum hundruðum bóka á ári yfir í að unga út 1.500 titlum að meðaltali á ári. Aukningin hefði hafist lýðveldisstofnunarárið 1944 þegar tala útgefinna bóka á ári á Íslandi fór í fyrsta sinn yfir 400. Aukningin hefði nánast haldist óslitið síðan. „En fjölgun titla segir ekki alla söguna. Þótt okkur vanti nákvæmar vísitölumælingar á bóksölu sjáum við að síðustu ár hafa verið óvenjugjöful. Varlega áætlað seljast um tvær milljónir bóka á Íslandi á ári ef þau eintök sem ríkið kaupir til skólabrúks eru talin með. Hvert mannsbarn kaupir sex og hálfa bók á ári. Það er náttúrlega topp tíu árangur,“ sagði Kristján. Hann sagði ennfremur að bókmenning þessa lands væri við betri heilsu nú en jafnvel bjartsýnustu menn hefðu spáð fyrir fimmtán til tuttugu árum.

Dómnefnd

Í DÓMNEFND í flokki fræðibóka og rita almenns efnis sátu þau dr. Gunnar Helgi Kristinsson formaður, Stefán Pálsson sagnfræðingur og Védís Skarphéðinsdóttir íslenskufræðingur. Í dómnefnd í flokki fagurbókmennta sátu þau Mörður Árnason formaður, Benedikt Hjartarson og Kristín Ástgeirsdóttir. Lokadómnefndin var skipuð þeim Gunnari Helga Kristinssyni og Merði Árnasyni en formaður hennar var Stefán Baldursson, sem skipaður var af forsetaembættinu.

Það er Félag íslenskra bókaútgefenda sem veitir verðlaunin og í ár eru þau veitt í tuttugasta skipti. Stefán Hörður Grímsson var fyrsti handhafi Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 1989.