Gunnlaugur Br. Björnsson
Gunnlaugur Br. Björnsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gunnlaugur Br. Björnsson og Jón Þorsteinn Sigurðsson skrifa um fordóma gegn innflytjendum: "Hver er ástæðan fyrir því að skyndilega virðast flestar flóðgáttir hafa brostið og fordómar ungs fólks í garð innflytjenda orðið svo áberandi?"

SIÐFERÐI Íslendinga virðist vera á niðurleið. Umfjöllun fjölmiðla um nýstofnuð samtök gegn innflytjendum og aðkomufólki vakti upp óhug hjá stjórn Ungmennahreyfingar Rauða kross Íslands í síðastliðinni viku. Til að mynda bar póstsending sem fór á milli stjórnarmanna á dögunum „Þetta hræðir mig“ og í bréfinu var bent á tengil sem vísaði inn á síðu „nýnasistasamtaka“ sem virðast hafi skotið rótum hér á landi. Á vefnum má finna íslenskan áróður byggðan á rasískri hugsun. Er þetta sú leið sem við Íslendingar ætlum að fara í þessum málum? Ætlum við halda áfram að brenna okkur á þessu hitamáli líkt og svo margar aðrar þjóðir hafa gert nú þegar? Innflytjendur eiga skilið betri móttökur en þessa umræðu af hálfu okkar sem hér erum borin og barnfædd.

Vísan um fjölmenningarlegt samfélag virðist aldrei of oft kveðin því við teljum það augljóst að tilkoma fjölbreytts hóps fólks með ólíkan bakgrunn kryddi tilveruna okkar hér heima á Fróni töluvert. Með hjálp þeirra kynnumst við nýjum og fjölbreyttum siðum og venjum. Það er staðreynd að þeim Íslendingum sem kunna að meta blóðmör og hvalrengi fer fækkandi en þeim sem vilja gjarnan smakka á framandi mat og kynna sér erlenda siði fer fjölgandi. Eiga þeir sem færa okkur þá siði skilið að fá í andlitið þá umræðu sem nú er í gangi í fjölmiðlum og ekki síst á veraldarvefnum?

Fordómafull umræða upp á síðkastið hefur nokkuð verið bundin við ungt fólk. Nýlega birtist viðtal í DV þar sem rætt var við Keflvíkinga, unga að árum, um félagsskap sem þeir hafa stofnað til undir nafninu ÍFÍ, eða „Ísland fyrir Íslendinga“. Voru ummæli hinna ungu stofnenda í garð nýbúa niðrandi í meira lagi og algjörlega ólíðandi, svo ekki sé minnst á þann aragrúa af staðreyndavillum sem finna mátti í málflutningi þeirra. Því var m.a. haldið fram að farandverkafólk stæli af okkur allri bygginga- og/eða fiskvinnu, þeirri vinnu sem sífellt færri Íslendingar vilja stunda. Svo ekki sé minnst á það þegar forsvarsmenn ÍFÍ tala um innflytjendur frá Austur-Evrópu sem litað fólk. Ekki er heldur langt að minnast þeirrar umræðu sem skapaðist í kringum vefsíðu Skaparans, en miðað við framkomu og málfar vefstjóra hennar mætti ætla að hann væri ekki nema rétt búinn að missa barnatennurnar.

Hver er ástæðan fyrir því að skyndilega virðast flestar flóðgáttir hafa brostið og fordómar ungs fólks í garð innflytjenda orðið svo áberandi? Það læra börnin sem fyrir þeim er haft og nú virðist sem aldagamlir undirliggjandi fordómar þeirra sem eldri eru séu að koma fram meðal afkomenda þeirra. „Það er eins og þær séu skítugar á höndunum, þessar pöddur“ heyrðist gömul kona segja við börn sín og barnabörn, um þeldökka einstaklinga. Þetta er lýsandi dæmi um það hvernig vanþekking og hræðsla Íslendinga gagnvart því sem nýtt er og framandi gengur mann fram af manni, kynslóð eftir kynslóð. Svo virðist einnig vera að ekki megi ræða um viðhorf og virðingu innan veggja skólanna þar sem það sé innræting og andstætt viðhorfum foreldranna.

Hvenær ætlum við að opna faðminn og taka innflytjendum fagnandi í stað þess að bölsótast yfir þeim? Hvenær munum við hjálpa þeim að aðlagast máli og menningu í stað þess að rausa yfir málleysi þeirra og vanþekkingu á okkar siðum og venjum? Er ekki kominn tími til að bindast vinaböndum í stað þess að stofna hættuleg mótmælendafélög?

Höfundar eru í stjórn Ungmennahreyfingar Rauða kross Íslands.