DANSKI fjárfestingarbankinn FIH, sem er dótturfélag Kaupþings, skilaði á síðasta ári hagnaði upp á rúman 1,1 milljarð danskra króna, um 14,3 milljarða króna. Er þetta aukning upp á um 190 milljónir danskra króna frá árinu 2006.

DANSKI fjárfestingarbankinn FIH, sem er dótturfélag Kaupþings, skilaði á síðasta ári hagnaði upp á rúman 1,1 milljarð danskra króna, um 14,3 milljarða króna. Er þetta aukning upp á um 190 milljónir danskra króna frá árinu 2006.

Í frétt Berlingske Tidende segir að FIH hafi tapað um 200 milljónum danskra króna á markaðsóróanum sem hófst um mitt síðasta ár og enn sér ekki fyrir endann á.

Tekjur af fjármálastarfsemi námu tæpum tveimur milljörðum danskra króna í fyrra, en voru um 1,7 milljarðar árið áður.

Tap og afskriftir námu 87,4 milljónum danskra króna en voru 91,5 milljónir árið 2006.

Breyttar samkeppnisaðstæður

Útlán bankans námu 75 milljörðum danskra króna árið 2007 samanborið við 67,6 milljarða árið áður, en í tilkynningu frá bankanum segir að búast megi við minni eftirspurn eftir lánsfé frá fyrirtækjum á þessu ári.

Hins vegar segir í tilkynningunni að samkeppnisaðstæður á dönskum fyrirtækjalánamarkaði hafi breyst nokkuð undanfarið þar sem flestir utanaðkomandi aðilar hafi yfirgefið svæðið og aðeins séu danskir og norrænir bankar eftir.

Í ljósi þessa sé búist við því að útlánaaukning árið 2008 verði um 10%.