Deila Danski fáninn brenndur í Bangladess í febrúar 2006.
Deila Danski fáninn brenndur í Bangladess í febrúar 2006.
KONUNGLEGA bókasafnið í Danmörku vill fá umdeildar, danskar skopmyndir af Múhameð spámanni í sína vörslu, teikningarnar sem hleyptu öllu í bál og brand eftir að Jótlandspósturinn birti þær haustið 2005.

KONUNGLEGA bókasafnið í Danmörku vill fá umdeildar, danskar skopmyndir af Múhameð spámanni í sína vörslu, teikningarnar sem hleyptu öllu í bál og brand eftir að Jótlandspósturinn birti þær haustið 2005. Mikil mótmæli brutust út í múslímaríkjum í kjölfarið, danski fáninn var brenndur og ráðist á sendiráð. Í norðurhluta Nígeríu féllu sextán manns í mótmælum og kveikt var í ellefu kirkjum vegna skopmyndanna, svo eitthvað sé nefnt. Þá urðu dönsk fyrirtæki fyrir fjárhagslegu tjóni.

Bókasafnið vill fá myndirnar í sína vörslu svo þær verði ekki tímanum að bráð og eyðileggist. Safnið á nú í samningaviðræðum við listamennina tólf sem teiknuðu myndirnar.

Talsmaður safnsins ítrekar að ætlunin sé ekki að æsa menn upp, teikningarnar verði ekki til sýnis. „Við höfum áhuga á því að varðveita þær fyrir komandi kynslóðir því þær hafa sögulegt gildi,“ segir talsmaður safnsins, Jytte Kjærgård, í samtali við breska dagblaðið Guardian .

Kjærgård segir það liggja í augum uppi að besti staðurinn til að varðveita teikningarnar sé Konunglega bókasafnið í Kaupmannahöfn. Þar sé öryggisgæsla í hámarki og ekkert ætti því að geta komið fyrir skopmyndirnar.