Getur hindrað Hafís lokar siglingaleiðinni fyrir Horn á norðanverðum Vestfjörðum fyrir nokkrum árum. Ekki er spáð viðlíka hafís í ár.
Getur hindrað Hafís lokar siglingaleiðinni fyrir Horn á norðanverðum Vestfjörðum fyrir nokkrum árum. Ekki er spáð viðlíka hafís í ár. — Morgunblaðið/Halldór Sveinbjörns
HAFÍSINN, landsins forni fjandi, verður líklega aðeins í námunda við landið í eina til tvær vikur á árinu, aðallega við Vestfirði norðan Djúps og Strandir og að öllum líkindum ekki lengur en í einn mánuð.

HAFÍSINN, landsins forni fjandi, verður líklega aðeins í námunda við landið í eina til tvær vikur á árinu, aðallega við Vestfirði norðan Djúps og Strandir og að öllum líkindum ekki lengur en í einn mánuð. Fyrst og fremst er um að ræða vormánuðina og miðað við tólf mílna fjarlægð, er ísinn er gjarnan sjáanlegur frá landi.

Þetta segir Páll Bergþórsson veðurfræðingur, sem lengi hefur rýnt í gögn við gerð hafísspáa.

„Þessi spá byggist á lofthitanum mánuðina frá ágúst 2007 til janúar 2008 við Jan Mayen, því að hausthiti þarna endurspeglar mjög vel sjávarhitann þarna við eyjuna, eða er kannski afleiðing af honum öllu heldur. Að jafnaði streymir sjór þaðan á hálfu ári til Norðurlands, frá Jan Mayen,“ segir Páll, sem vitnar til sögunnar.

„Í þetta skiptið er dálítið kaldara við Jan Mayen en verið hefur síðan fyrir síðustu aldamót, en þó álíka hlýtt og var á hlýskeiðinu 1930 til 1960. Þá var yfirleitt mjög lítill ís.“

Spárnar hafa ræst vel

Aðspurður um hvernig spárnar hafi ræst undanfarin ár segir Páll reynsluna af þeim mjög góða.

„Þær hafa yfirleitt reynst mjög vel. Ef maður reiknar eftir þessari reglu sem ég nota, um sambandið á milli hitans og íssins, alveg frá 1920, þegar byrjað var að mæla hitann við Jan Mayen, þá er það þrisvar sinnum sem spáin hefur gefið meira en þrjá mánuði af ís og í öll skiptin var það og aldrei annars. Þetta voru árin 1965, 1968 og 1969. Það segir töluvert mikið um að það sé nokkuð að marka þetta.“