RÁÐSTEFNA í tilefni nýrrar menntaáætlunar Norrænu ráðherranefndarinnar, Nordplus, verður haldin í Norræna húsinu dag kl. 13. Þar verður menntaáætlunin fyrir árin 2008-2011 kynnt ásamt undiráætlunun og hinni Norrænu tungumála- og menningaráætlun...

RÁÐSTEFNA í tilefni nýrrar menntaáætlunar Norrænu ráðherranefndarinnar, Nordplus, verður haldin í Norræna húsinu dag kl. 13. Þar verður menntaáætlunin fyrir árin 2008-2011 kynnt ásamt undiráætlunun og hinni Norrænu tungumála- og menningaráætlun Nordplus. Alls eru til skiptanna um 960 milljónir króna fyrir skólaárið 2008.

Ein helsta breyting frá fyrri áætlun er sú að Eystrasaltsríkin; Eistland, Lettland og Litháen, eru með í fyrsta skipti. „Það er mjög spennandi, ekki síst þar sem mikill uppgangur er í Eystrasaltslöndunum,“ segir Guðmundur Ingi Markússon, verkefnastjóri hjá Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins, landsskrifstofu Nordplus. „Það fjölgar möguleikum til muna, en áður var t.a.m. ekki hægt að fá styrki til að fara með nemendur í bekkjarheimsóknir til ríkjanna, né til kennaraskipta.“

Ísland tekið virkan þátt

Rúmlega 700 skiptistúdentar hafa komið til Háskóla Íslands frá árinu 1995 á vegum áætlunar Nordplus og rúmlega 550 íslenskir skiptistúdentar farið frá HÍ til háskóla annars staðar á Norðurlöndunum. Þá hafa um 220 nemendur og kennarar hafa farið frá Íslandi til Norðurlanda sl. 2 ár í fullorðinsfræðsluverkefninu Nordplus voksen, flestir til náms í lýðháskólum og hátt í 2.000 grunn- og framhaldsskólanemendur og kennarar hafa sl. 3 ár farið í heimsóknir í skóla annars staðar á Norðurlöndunum.

Ráðstefnan er ætluð skólum, stofnunum, félagasamtökum, fyrirtækjum, o.s.frv., sem vinna að menntamálum á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi, á háskólastigi, og á sviði fullorðinsfræðslu og símenntunar; einnig þeim sem vinna að framgangi norrænna tungumála og menningar.

www.nordplus.is