Portrett Myndirnar dreifast og eru líkast til dansandi á veggnum.
Portrett Myndirnar dreifast og eru líkast til dansandi á veggnum.
Opið föstudaga og laugardaga frá 13–18. Sýningu lýkur 9. febrúar. Aðgangur ókeypis.

Í JÓNAS Viðar galleríi sýnir Guðrún Pálína Guðmundsdóttir málverkasýningu undir yfirheitinu „Andlit“. Guðrún hefur undanfarin ár fengist við portrettmálun. Þó ekki í hefðbundnum skilningi, þar sem listakonan gefur sér fullt frelsi til að breyta ásjónu fyrirmyndarinnar til að þjóna formi, lit og efni, en hún gefur efninu svigrúm til að athafna sig þannig að litir blandast, blautt í blautt, svo eitthvað óvænt kann að birtast í andlitunum. Málið snýst þá um tilfinningalega nálgun þar sem litur og efniskennd skapar hughrif í takt við svipbrigði andlitanna (andlit merkir; útlit/ásjóna andans).

Guðrún nam myndlist í Hollandi á árunum 1982-1989 og í myndum hennar kennir ýmissa grasa þaðan. Þunn og lekandi olían, sem minnir einna helst á vatnslitamyndir, hefur verið kennimerki hollenskra málara á borð við Rene Daniels, Marlene Dumas og Rob Birza ( Birza notar reyndar egg-temperu með sama hætti). Nýtir Guðrún áþekka tækni og hefur náð sæmilegasta valdi yfir henni. Jafnframt heldur hún myndfletinum opnum og gegnsæjum sem er í takti við áðurnefnda málara.

Þetta eru litríkar myndir og bjartar sem dreifast eftir langveggnum og eru líka dansandi á veggnum. Virka hvorutveggja sem ein heildarmynd eða stakar portrettmyndir.

Jón B. K. Ransu